Handbolti

Eyjamenn lögðu sterkt franskt úrvalsdeildarlið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sigurbergur átti góðan leik í kvöld.
Sigurbergur átti góðan leik í kvöld. vísir/ernir
ÍBV gerði sér lítið fyrir og vann eins marks sigur, 24-23, á franska liðinu PAUC í fyrri leik liðanna í EHF-bikarnum en leikið var í Vestmannaeyjum í kvöld.

PAUC er ógnasterkt franskt úrvalsdeildarlið sem endaði í fimmta sæti deildarinnar í fyrra. Tvö frönsk lið spiluðu til úrslita í Meistaradeildinni svo deildin er ein sú besta í heimi.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en á tímapunkti náðu Frakkarnir mest þriggja marka forskoti. Í hálfleik munaði þó bara tveimur mörkum, 10-12.

Eyjamenn spiluðu fanta vörn í síðari hálfleik og Kolbeinn Aron Ingibjargarson varði frábærlega í markinu. Eyjavörnin, fimm plús einn, var að virka vel og Frakkarnir í vandræðum.

Er um mínúta var eftir stal Theodór Sigurbjörnsson einmitt boltanum eftir þversendingu Frakkana og skoraði úr hraðaupphlaupi. Hann kom ÍBV í 24-23 en það urðu lokatölurnar.

Sigurbergur Sveinsson var markahæstur Eyjamanna með sjö mörk en næstur kom Kristján Örn Kristjánsson með sex. Kári Kristján Kristjánsson skoraði fjögur og Theodór Sigurbjörnsson sömuleiðis en Hákon Daði gerði þrjú.

Sterkur sigur Eyjamanna en síðari leikur liðanna fer fram í Frakklandi næsta sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×