Erlent

„Ekki auðvelt að standa uppi í hárinu á Weinstein“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Helena Bonham Carter er ein þekktasta leikkona Breta.
Helena Bonham Carter er ein þekktasta leikkona Breta. vísir/getty

Leikkonan Helena Bonham Carter segir að það hafi ekki verið auðvelt að neita kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein um hluti þar sem hætt var við að hún myndi missa vinnuna.



Í ítarlegu viðtali við The Guardian segist hún hafa vitað að hún væri að á hálum ís þegar hún sagði nei við Weinstein þó að hún sé ekki að vísa í kynferðisofbeldi heldur eineltistilburði framleiðandans.



MeToo-byltingin hófst fyrir um ári síðan eftir að konur í skemmtanabransanum stigu fram í fjölmiðlum og sögðu frá kynferðisofbeldi og kynferðislegri áreitni af hálfu Weinstein. Bonham Carter segir að henni MeToo-byltingin góð en að það þurfi að gæta varkárni.



„Þú þarft að vera mjög nákvæm í því hvað viðkomandi hefur gert til að stíga fram og ásaka þá um eitthvað. Það þarf að bera virðingu fyrir #MeToo,“ segir Bonham Carter.

Weinstein hefur verið sakaður um að brjóta gegn fjölda kvenna.Vísir/AP

Sýndi enga virðingu í samskiptum

Þegar blaðamaður Guardian spyr hana síðan um Weinstein segir hún:



„Enginn er bara vondur og enginn er bara góður. Weinstein var snjall. Það eru margar ástæður fyrir því hvað hann var valdamikill. Hann vissi til dæmis hvernig hann ætti að færa þér Óskarstilnefningu. Báðar mínar tilnefningar eru vegna hans og svo er hann með frábæran smekk á kvikmyndum.“



Bonham Carter segir hins vegar að henni hafi þótt óhugnanlegt hvernig hann kom fram við sumt fólk.



„Hann sýndi enga virðingu. Það voru atvik þar sem ég var ósátt við hegðun hans, og þá er ég ekki að meina kynferðislega,“ segir Bonham Carter og segist vera að vísa í eineltistilburði Weinstein.



„Það voru stundir þar sem hann bað mig um að gera tiltekna hluti og ég sagði nei. Ég var á hálum ís. Það var ekki auðvelt að standa uppi í hárinu á Weinstein því ég vissi að ég gæti mögulega misst vinnuna.“

Hélt aldrei að hegðun Weinstein myndi koma honum í koll

Aðspurð hvers vegna hún hafi getað staðið uppi í hárinu á honum þegar aðrir gátu það ekki segist hún hafa þá þegar átt feril.



„Ég var í vinnu hjá öðrum. Ég þurfti ekki að stóla á hann.“



Bonham Carter segist ekki hafa talið að hegðun Weinstein myndi nokkurn tímann koma honum í koll, eins og raunin hefur verið, en hann var fyrr á árinu ákærður fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot af lögregluyfirvöldum í New York.



Hann hafi verið of valdamikill. Hún segist hafa heyrt af því að hann hafi sofið hjá tilteknum leikkonum en segist hafa haldið að það hafi verið með samþykki kvennanna. Þá segir Bonham Carter að reynsla hennar hafi ekki orðið til þess að hana langaði ekki til þess að vinna með Weinstein.



„Nei, þetta eru viðskipti.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×