Erlent

Tugir þingmanna Íhaldsflokksins sagðir tilbúnir að fella Brexit-samning May

Kjartan Kjartansson skrifar
Tími Thersesu May sem leiðtoga Íhaldsflokksins hefur ekki verið neinn dans á rósum. Hún hefur þurft að glíma við nær stanslausa uppreisn vegna Brexit.
Tími Thersesu May sem leiðtoga Íhaldsflokksins hefur ekki verið neinn dans á rósum. Hún hefur þurft að glíma við nær stanslausa uppreisn vegna Brexit. Vísir/EPA
Að minnsta kosti fjörutíu þingmenn breska Íhaldsflokksins eru sagðir tilbúnir að greiða atkvæði gegn mögulegum samningi ríkisstjórnar Theresu May forsætisráðherra um útgöngu úr Evrópusambandinu ef þeir telja hann ekki ganga nógu langt í að rjúfa tengslin við sambandið.

Steve Baker, þingmaður Íhaldsflokksins, fullyrti að tugir félaga hans myndu ekki samþykkja samning sem gerði ráð fyrir að Bretlandi héldi áfram í Evrópusamstarfinu að einhverju leyti, þar á meðal innri markaði ESB eða tollabandalagi þess. Baker var áður aðstoðarráðherra í Brexit-málum en sagði af sér til að mótmæla tillögum May.

Reuters-fréttastofan segir að ef fjörutíu þingmenn Íhaldsflokksins gengju úr skaftinu við atkvæðagreiðslu um mögulegan Brexit-samning í þinginu yltu örlög hans á þingmönnum Verkamannaflokksins. Þeir hafa gefið til kynna að þeir myndu fella samning sem May bæri á borð fyrir þá.

May hefur lagt til að Bretland haldi áfram í fríverslun við Evrópusambandið með því að gangast undir sameiginlegar reglur. Bretar myndu jafnframt taka þátt í Evrópustofnunum sem votta vörur.

Þær tillögur hafa farið öfugt ofan í harðlínumenn í Íhaldsflokki hennar. Sumir þeirra hafa jafnvel talað fyrir því að Bretar gangi úr sambandinu án þess að nokkur samningur liggi fyrir, þar á meðal Baker.

„Við myndum þurfa að vera óhrædd við að halda áfram án samnings,“ segir Baker.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×