Innlent

Ungt fólk reykir kókaín í auknum mæli

Birgir Olgeirsson skrifar
Sjúkrahúsið Vogur,
Sjúkrahúsið Vogur, VÍSIR/VILHELM
Síðastliðið ár hefur starfsfólk Vogs orðið þess áskynja að fólk sé farið að reykja kókaín í auknum mæli. Greint var frá því í fréttum Ríkisútvarpsins um liðna helgi að neysla krakks hefði aukist mikið hér á landi, sérstaklega í yngsta aldurshópnum.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi, segir í samtali við Vísi að neysla á kókaíni hafi aukist mikið undanfarið og færst hafi í aukana að ungt fólk, á aldrinum 20 til 40 ára, reyki það.

Í frétt Ríkisútvarpsins kom fram að börn allt niður í fimmtán ára aldur séu farin að reykja krakk og að sautján ára drengur hefði verið fluttur á bráðamóttöku vegna neyslu þess.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.Fréttablaðið/Pjetur
Krakk er hreint kókaín blandað með natróni eða ammoníaki og vatni. Valgerður segist ekki vita til þess að fólk sé sérstaklega að reykja krakk, en starfsfólk Vogs hafi fengið upplýsingar um að fólk sé farið að reykja kókaín í auknum mæli.

Með því að reykja kókaínið hraðar það upptöku efnisins í blóði, því upptakan er hraðari í gegnum lungun heldur en ef efnið er tekið í nefið.

„Þetta er sama efnið en svo veit ég ekki hvort þetta uppfylli skilyrðin fyrir því að kalla þetta krakk. Það eru einhver dæmi um að börn hafi verið að þessu, en fyrst og fremst er þetta eldra fólk, það er að segja ungir fullorðnir,“ segir Valgerður og segir kókaínneyslu mesta á meðal ungs fólks á þrítugs og fertugsaldrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×