Erlent

Nikki Haley segir upp

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nikki Haley hefur sagt starfi sínu hjá Sameinuðu þjóðunum lausu.
Nikki Haley hefur sagt starfi sínu hjá Sameinuðu þjóðunum lausu. Vísir/afp
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, hefur sagt starfi sínu lausu. Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, er sagður hafa móttekið og samþykkt uppsögn hennar.

Vefmiðilinn Axios greindi fyrst frá málinu og vísaði í tvo heimildarmenn innan veggja Hvíta hússins. Haley á að hafa rætt við forsetann í liðinni viku en ekki liggur fyrir hvenær hún segir formlega skilið við sendiherrastöðuna. Uppsögnin er sögð hafa komið mörgum háttsettum starfsmönnum Hvíta hússins á óvart.

Haley hefur átt undir högg að sækja að undanförnu eftir að fréttir bárust af því að hún hafi þegið hið minnsta 7 ferðir í einkaþotum sem greiddar voru úr vösum auðmanna frá heimaríki hennar, Suður-Karólínu. Samtök sem berjast fyrir aukinni siðferðisvitund í bandarískum stjórnmálum hafa kallað eftir því að flugferðirnar verði rannsakaðar. Þau segja að með því að þiggja flugferðirnar hafi sendiherrann brotið siðareglur, sem kveða á um að opinberir starfsmenn megi ekki taka við gjöfum í tengslum við störf sín.

Ekki er vitað á þessari stundu hvort að afsögn hennar tengist téðum flugferðum en upplýsingafulltrúi Hvíta hússins greindi frá því á Twitter að Haley og Trump muni funda síðar í dag. Fundur þeirra verður opinn blaðamönnum.

Uppfært 15:05

Trump sagði á fundinum að Haley hafi tjáð honum fyrir hálfu ári síðan að hún vildi taka sér frí frá sendiherrastörfunum. Forsetinn sagði að hún væri alltaf velkomin aftur og að hún mætti þá „velja sér það starf sem hún vildi“ meðan hann væri við stjórnvölinn.

Haley gaf auk þess lítið fyrir vangaveltur þess efnis að hún hefði í hyggju að bjóða sig fram til forseta árið 2020.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×