Íslenski boltinn

23. september er dagur sem Gunnleifi er ekki ætlað að spila á

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson er fyrirliði og markvörður Breiðabliks.
Gunnleifur Gunnleifsson er fyrirliði og markvörður Breiðabliks. vísir/bára
Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði Blika verður ekki með liðinu um helgina þegar Breiðablik mætir Fjölni í 21. umferð Pepsideildar karla í fótbolta og missir þar af sínum fyrsta leik síðan 2012.

Gunnleifur fékk rautt spjald í leik Fylkis og Breiðabliks í gær og verður því í leikbanni á móti Fjölni. Hann fékk rauða spjaldið í uppbótartíma leiksins fyrir að brjóta á Fylkismanninum Ragnari Braga Sveinssyni sem var sloppinn í gegn.

Gunnleifur hefur spilað alla 130 leiki í boði síðan að hann gekk til liðs við Blika fyrir 2013 tímabilið. Að auki spilaði hann lokaleik FH á 2012 tímabilinu.

Síðasti leikurinn sem Gunnleifur missti af var á móti ÍBV 23. september 2012 en Róbert Örn Óskarsson var þá í marki FH. Leikurinn um helgina fer líka fram 23. september en bara 2191 degi síðar. Gunnleifur missri nú af öðru tækifæri að spila leik 23. september en það er greinilega dagur sem Gunnleifi er ekki ætlað að spila á.

Þetta var fyrsta rauða spjald Gunnleifs í Pepsideildinni síðan að hann fékk rautt spjald í leik á móti Stjörnunni 27. júní 2010. Gunnleifur var þá markvörður FH.

Gunnleifur var kominn upp í fimmta sæti yfir þá sem hafa spilað flesta leiki í röð í efstu deild með því að spila 131 leik í röð.

Upplýsingar um þennan topplista má finna í Íslenskri knattspyrnu 2017 en met Birkis Kristinssonar er 198 leikir í röð. Gunnleifi vantaði sex leiki í viðbót til að ná Daða Lárussyni í fjórða sætinu.

Hér fyrir neðan má sjá rauða spjaldið hans Gunnleifs Gunnleifssonar á Fylkisvellinum í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×