Enski boltinn

Sérfræðingur BBC eys lofi yfir Gylfa: „Einstakur leikmaður sem hægt er að byggja lið í kringum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið um síðustu helgi.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið um síðustu helgi. vísir/getty
Pat Nevin, fyrrverandi leikmaður Everton og einn helsti leikgreinandi BBC þegar kemur að ensku úrvalsdeildinni, er gríðarlegur aðdáandi Gylfa Þórs Sigurðssonar og vonast til að hann haldi áfram að fá það besta út úr samherjum sínum.

Í viðtali á heimasíðu Everton sem fjallar alfarið um Gylfa segir Nevin íslenska landsliðsmanninn hafa skemmtilega blöndu af einstökum hæfileikum auk þess sem að hann hættir aldrei að vinna fyrir liðið og hefur ofan á allt saman mikla fótboltagreind.

Gylfi hefur farið vel af stað með Everton-liðinu á nýju tímabili. Hann skoraði sitt fyrsta deildarmark um helgina í 3-1 tapi gegn West Ham og er á meðal efstu manna ensku úrvalsdeildarinnar þegar kemur að sköpuðum færum.

Gylfi Þór vinnur mikið fyrir liðið.vísir/getty

Sér það sem aðrir sjá ekki

„Mér finnst Gylfi ótrúlega einstakur leikmaður sem hægt er að byggja lið í kringum,“ segir Nevin. „Sýn hans á vellinum er mögnuð. Þegar útsjónarsamir leikmenn eins og ég var horfa á leiki þá sjá þeir sendingarnar sem menn þurfa að senda.“

„Maður sér stundum leikmenn sem sjá einhverja af þessum sendingamöguleikum en síðan eru leikmenn eins og Gylfi. Ef það er möguleiki á sendingu þá gefur Gylfi boltann. Sendingar hans eru aldrei of stuttar, þær eru alltaf fullkomnar. Hann hefur mikla náðargáfu fyrir árvekni á vellinum.“

Everton hefur farið mikinn á félagaskiptamarkaðnum í undanförnum gluggum og fengin til sín öfluga sóknarmenn eins og Richarlison, Theo Walcott, Bernard og Cenk Tosun. Það ætti bara að gera Gylfa betri að vera með svona menn í kringum sig að mati Nevin.

Gylfi Þór sér alla, alltaf.vísir/getty

Rétt hlaup skila mörkum

„Þetta er draumastaða fyrir Gylfa. Það er bara frábært fyrir hann að vera með menn eins og Richarlison, Walcott og Bernard með sér. Ef hann er með svona hraða með sér geta gæði Gylfa skinið í gegn,“ segir Nevin.

„Það sem Gylfi þarf á að halda eru sóknarmenn sem taka skynsamleg og klár hlaup því Gylfi mun finna menn. Ég er líka á því að Cenk Tosun mun fara að skora ef hann heldur áfram að taka sín hlaup,“ segir Nevin sem er vitaskuld hrifinn af spyrnugetu Gylfa.

„Spyrnur hans í föstum leikatriðum eru engu líkar. AUkaspyrnurnar þekkja allir og svo getur hann komið í seinni bylgjunni inn á teiginn og skorað mörk. Gylfi er bara einstakur leikmaður,“ segir Pat Nevin.


Tengdar fréttir

Gylfi tók toppsætið af Eiði Smára

Gylfi Þór Sigurðsson er nú kominn upp fyrir Eið Smára Guðjohnsen í sköpuðum mörkum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×