Erlent

Fleiri fórnarlömb parsins stíga fram

Samúel Karl Ólason skrifar
Grant William Robicheaux og Cerissa Riley.
Grant William Robicheaux og Cerissa Riley. Vísir/EPA
Skurðlæknirinn Grant William Robicheaux og kærasta hans Cerissa Riley þvertaka fyrir að hafa byrlað minnst tveimur konum ólyfjan og nauðgað þeim. Þau hafa verið ákærð fyrir að nauðga tveimur konum en grunur leikur á að fórnarlömbin hafi verið mun fleiri. Minnst sex konur hafa stigið fram til viðbótar en mikill fjöldi myndbanda fannst á símum þeirra sem þau munu hafa tekið af meintum fórnarlömbum sínum.

Saksóknarar segja bersýnilegt á nokkrum myndböndum að konunum hefði verið byrlað ólyfjan.

USA Today segir rannsakendur gruna parið um að hafa farið á fjölda tónlistarhátíða á undanförnum árum til að leita að fórnarlömbum. Robicheaux og Riley eru frá Kaliforníu. Hins vegar eru tvær af konunum sex sem hafa stigið fram eftir að fyrstu ákærurnar voru opinberaðar frá öðrum ríkjum Bandaríkjanna.



Sjá einnig: Bandarískur skurðlæknir og kærasta hans grunuð um fjölda nauðgana



Lögmaður parsins gaf í gærkvöldi út tilkynningu þar sem haft er eftir þeim að þau þvertaki fyrir að hafa brotið gegn konum. Þar segir að þau hafi vitað af ásökununum um nokkuð skeið og muni neita þeim fyrir dómi. Þá sagði lögmaðurinn að ákærurnar kæmu störfum Robicheaux ekkert við.

Í tilkynningunni segir enn fremur að parið telji ásakanirnar grafa undan „raunverulegum fórnarlömbum kynferðisofbeldis“.

Verði þau fundin sek eiga þau yfir höfði sér allt að 30 til 40 ára fangelsisvist.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×