Viðskipti innlent

Hætta við Straumsvík en stækka álver í Noregi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Álver Hydro í Husnes í Noregi.
Álver Hydro í Husnes í Noregi. Mynd/Hydro.
Norsk Hydro hefur ákveðið að stækka álver sitt í Husnes í Noregi og verja til þess 1,4 milljörðum norskra króna, andvirði nítján milljarða íslenskra. Þessi ákvörðun Hydro er tilkynnt aðeins fimm dögum eftir að fyrirtækið upplýsti að það hefði hætt við að kaupa ISAL í Straumsvík, en Hydro-menn sögðust með þeim kaupum vilja auka eigin álframleiðslu til að mæta vaxandi eftirspurn. 

Husnes-álverið er í Kvinnherad á Hörðalandi, miðja vegu milli Stavanger og Bergen. Með stækkuninni tvöfaldast framleiðslugeta þess úr 95 þúsund tonnum á ári upp 190 þúsund tonn. Jafnframt fjölgar starfsmönnum álversins um 90 talsins en þeir eru nú 245. 

„Við stefnum að því að framleiða ál í Noregi með hreinni endurnýjanlegri orku og gera það með bestu fáanlegu tækni á heimsvísu," segir Hilde Merete Aasheim, í tilkynningu Hydro en hún stýrir álframleiðslu fyrirtækisins. 

Samhliða stækkun verður tækjabúnaður álversins endurnýjaður. Stefnt er að því að nýja framleiðslulínan verði tekin í notkun á fyrri helmingi ársins 2020.

Sú skýring var gefin fyrir helgi á samningsriftuninni um kaupin á ISAL að bið eftir samþykki evrópskra samkeppnisyfirvalda væri orðin of löng. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hydro hættir við að fjárfesta í álverum hérlendis. Norska fyrirtækið hugðist reisa álver á Reyðarfirði en frestaði þeim áformum árið 2002 sem varð til þess að Alcoa tók yfir verkefnið. Á áttunda áratug síðustu aldar átti Norsk Hydro í viðræðum um álver í Eyjafirði.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×