Innlent

Innri endurskoðun OR breytt í kjölfar óvæntra starfsloka

Sveinn Arnarsson skrifar
Innri endurskoðandi OR lagði til að utanaðkomandi gerðu úttekt á stjórnarháttum fyrirtækisins
Innri endurskoðandi OR lagði til að utanaðkomandi gerðu úttekt á stjórnarháttum fyrirtækisins . Fréttablaðið/Anton Brink
Fyrirkomulagi á innri endurskoðun hjá Orkuveitu Reykjavíkur (OR) var breytt fyrr á árinu í kjölfar óvæntra starfsloka Guðmundar Inga Bergþórssonar, sem starfaði sem innri endurskoðandi fyrirtækisins. Sinnir innri endurskoðun Reykjavíkurborgar nú þessu hlutverki.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tengdust starfslok Guðmundar Inga tillögu hans um að utanaðkomandi aðili yrði fenginn til að gera úttekt á stjórnarháttum innan fyrirtækisins. Samkvæmt ákvörðun stjórnar OR mun fara fram óháð úttekt á vinnustaðamenningu hjá fyrirtækinu og tilteknum starfsmannamálum. Hefur stjórnin falið þeirri sömu innri endurskoðun borgarinnar að annast þá úttekt ásamt utanaðkomandi sérfræðingum.

Í bókun byggðarráðs Borgarbyggðar, eins eigenda OR, frá 25. janúar síðastliðnum kemur fram að það sé „nauðsynlegt að innri endurskoðun OR sé skilin frá innri endurskoðun stærsta eiganda fyrirtækisins þegar til framtíðar sé litið“.

Fulltrúar minnihlutans í borginni óskuðu þann 23. ágúst eftir því að fram færi kynning í borgarráði á niðurstöðum úr starfsánægjukönnun stærstu fyrirtækja borgarinnar. Sú tillaga var felld þann 6. september á þeim forsendum að öll fyrirtæki B-hluta yrðu með kynningar í aðdraganda fjárhagsáætlunargerðar þar sem gæfist tækifæri til að spyrja um reksturinn.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði óskuðu í ljósi nýliðinna atburða eftir því að umrædd kynning færi fram í borgarráði í gær en við því var ekki orðið. Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, kom hins vegar á fund borgarráðs til að fara yfir stöðuna.


Tengdar fréttir

Ólga meðal starfsfólks Orkuveitu Reykjavíkur

Starfsmannafundur var haldinn í OR í gær vegna þeirrar stöðu sem komin er upp innanhúss. Svör starfsmannastjóra við spurningum vöktu furðu starfsfólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×