Umfjöllun og viðtöl: ÍR - ÍBV 31-27 | Breiðhyltingar komnir á blað eftir sigur á meisturunum

Svava Kristín Grétarsdóttir í Austurbergi skrifar
vísir
ÍR fagnaði sínum fyrsta sigri þegar liðið vann fjögurra marka sigur á stórliði ÍBV, 31-27. Þetta var baráttu leikur í Austurbergi en staðan í hálfleik var 18-15, heimamönnum í vil.  

Leikurinn var jafn á upphafs mínútunum meðan liðin voru að koma sér inní leikinn. ÍR tók svo völdin á vellinum og var komið í sex marka forystu undir lok fyrri hálfeiks. Það gekk lítið upp hjá Eyjamönnum hvort sem það var í vörn eða sókn. Varnarleikur Breiðhyltinga var þéttur og hávörnin hjá þeim sá um stórskyttu ÍBV, Sigurberg Sveinsson, í fyrri hálfleik. Kristján Orri Jóhannsson, leikmaður ÍR, átti frábæran leik og var með hvorki meira né minna en 9 mörk í fyrri hálfleik helming marka ÍR, en staðan þegar flautað var til hálfleiks, 18-15. 

ÍR-ingar héldu áfram þar sem frá var horfið og héldu Eyjamönnum í góðri fjarlægð í síðari hálfleik. ÍBV átti ágæta kafla inná milli þar sem þeir söxuðu á forskotið en þeir komust aldrei niður fyrir tvö mörk. Lokastaðan 31-27, ÍR í vil sem fagnaði innilega sínum fyrsta sigri. 

Af hverju vann ÍR?

ÍR-ingar mættu þéttir til leiks í dag og voru heilt yfir betri í dag. Varnarleikurinn var til fyrirmyndar og náðu þeir að loka vel á Eyjamenn sem gerðu ítrekuð mistök sóknarlega. ÍR skoraði mikið í hraðaupphlaupum sem gerði Eyjamönnum erfitt fyrir í eltingaleik dagsins. 

Hverjir stóðu upp úr?

Kristján Orri Jóhannsson var frábær í dag, skoraði 13 mörk og þar af 9 í fyrri hálfleik. Þrándur Gíslason Roth átti einnig mjög góðan leik fyrir ÍR. 

Leikmenn ÍBV hafa átt betri dag en Kári Kristján Kristjánsson og Sigurbergur Sveinsson áttu ágætan síðari hálfleik. 

Hvað gekk illa? 

ÍBV gekk illa sóknarlega í dag, fundu fá svör við sterkri vörn ÍR. Þá fengu þeir mikið af brottvísunum sem gerði þeim heldur betur erfitt fyrir en þrisvar sinnum í leiknum voru þeir tveimur færri vegna brottvísanna og í sókninni nýttu Eyjamenn ekki færin sín. Virkilega ósannfærandi leikur hjá meisturunum í dag en það verður ekkert tekið af ÍR sem átti stór góðan leik. 



Hvað er næst?

Framundan er landsleikjahlé, A og B landslið íslands mæta til æfinga í næstu viku. Í næstu umferð Olís-deildarinnar verður suðurlands slagur í Eyjum, þegar ÍBV tekur á móti Selfossi. ÍR fer svo í heimsókn á Hlíðarenda þar sem þeir mæta Val.

 

Bjarni: Alltaf óþægilegt að vera ekki búinn að vinna 

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, var ánægður með sína menn eftir sigurinn. 



„Ég var smeykur alveg þar til við vinnum boltann þegar 1 og hálf mínúta voru eftir, þá hugsaði ég að þetta væri komið“ sagði Bjarni en liðið var þó með fjögurra marka forystu á þeim tímapunkti.  



„Það sem við bættum frá síðasta leik voru tapaðir boltar og heimskulegar ákvarðanir. Við erum búnir að spila vel fyrstu þrjá leikina, svo bara vinnum við hægt og rólega úr því sem betur má fara í gegnum tímabilið.“ sagði Bjarni sem sagði að sigurinn væri vel þeginn enda þeirra fyrsti á þessu tímabili. 

„Alveg sama hvað þjálfarar segja, það er alltaf óþægilegt að vera ekki búinn að vinna leik. Nú er sá ís brotinn og það gegn svona sterku liði það gerir sigurinn ennþá sætari.“ 

 

Kristján Orri: Það gekk allt upp

„Þetta var frábær leikur að mestu leyti hjá okkur.“ sagði Kristján Orri Jóhannsson, leikmaður ÍR. Kristján skoraði 13 mörk í dag. 

„Ég hefði samt viljað fara inní hálfleikinn með að minnsta kosti 7 mörk. Það er undir lok fyrri hálfleiks sem við dettum aðeins niður. Leikurinn var svolítið sveiflukenndur í fyrri hálfleik sérstaklega, þar sem við missum leikinn niður í tvö mörk. En þetta var flottur leikur, frábær stemming í húsinu og það gekk bara allt upp.“  

Eins og áður hefur komið fram þá átti Kristján Orri frábæran leik í dag, hann þakkar fyrir góða stemmingu í húsinu en segir að liðið í heild sinni hafi átt góðan leik sem skilaði honum þessum mörkum. En hver var uppskriftin að þessari velgengni í dag?

„Ég fékk mér pönnuköku, kleinuhring og ristað brauð í morgunmat og svo langloku fyrir leik. En það var spilamennska liðsins og svo fékk ég mikið af hraðaupphlaupum líka.“ sagði Kristján að lokum

 

Kristinn: Við erum í ákveðinni brekku. 

„Ég er drullu svekktur“ voru fyrstu orð Kristins Guðmundsson, aðstoðarþjálfara ÍBV. 

„Við erum í ákveðinni brekku að finna neistann varnarlega í þessum fyrstu leikjum okkar. Svo þegar vörnin fór að tikka í dag þá tókum við erfiðar ákvarðanir sóknarlega. Við vorum klaufar og óskynsamir. Vorum að brjóta okkur út úr þeim plönum sem við höfðum fyrir leikinn.“ 

„Það er ákveðið agaleysi að ná ekki að klára okkar sóknir. Það kostar okkur ótrúlega mikið af mörkum í bakið og þar af leiðandi varð erfitt að ná tökum á leiknum. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða þjálfararnir og leikmenn saman. Við þurfum að taka betri ákvarðanir inná vellinum.“ sagði Kristinn 

„Það er erfitt að stoppa Kristján Orra þegar þú ert alltaf skrefinu á eftir og svo eru ÍR-ingarnir með fullt af flottum strákum. Það var mjög erfitt að eiga við þá í dag, Þrándur (Gíslason Roth) reyndist okkur til dæmis mjög erfiður líka.“ 

„Þeir vildu þetta bara meira í dag, það vilja auðvitað allir vinna en það skein af þeim. Þetta er eitthvað sem við þurfum að finna hjá okkar leikmönnum fyrir næsta leik, ég veit að þetta býr í þeim.“

Fannar Friðgeirsson var ekki á skýrslu hjá ÍBV í dag, Kristinn segir að hann hafi verið veikur og býst hann því við honum í næsta leik. 

„Hann er með ælupest, það hefði auðvitað verið gott að hafa hann og Magga (Magnús Stefánsson) með í dag, en við erum með fullt af góðum leikmönnum.“

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira