Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Akureyri 31-26 | Haukarnir svöruðu fyrir skellinn í síðustu umferð

Benedikt Grétarsson í Schenker-höllinni að Ásvöllum skrifar
vísir
Haukar unnu sinn fyrsta leik í Olísdeild karla í handbolta á þessu tímabili þegar liðið skellti Akureyri 30-25 að Ásvöllum í Hafnarfirði. Staðan í hálfleik var 15-12 Haukum í vil sem hafa nú þrjú stig að loknum þremur leikjum. Akureyringar eru hins vegar stigalausir á botni deildarinnar.

Adam Haukur Baumruk skoraði 9 mörk fyrir Hauka, sem jafnframt voru hans fyrstu mörk fyrir liðið í vetur. Hafþór Már Vignisson var markahæstur Akureyringa með 7 mörk.

Haukar þurftu nauðsynlega að svara fyrir niðurlæginguna sem liðið þurfti að þola í síðustu umferð gegn KA en sjálfstraustið virtist vera nokkuð brotið eftir þann leik.

Handboltinn sem boðið var upp á var ekki upp á marga fiska og urmull mistaka leit dagsins ljós. Það má kannski segja að það hafi verið Haukum til happs að þeir voru ekki að leika gegn einu af sterkari liðum deildarinnar, því að heimamenn voru ekki sannfærandi og gestirnir í raun klaufar að velgja þeim ekki meira undir uggum í fyrri hálfleik.

Jákvæðustu fréttir fyrri hálfleiksins fyrir Haukamenn var sú staðreynd að Adam Haukur Baumruk komst loks á blað í deildinni eftir mikla eyðimerkurgöngu en Adam skoraði fimm falleg mörk i fyrri hálfleik.

Arnar Þór Fylkisson varði mjög vel í marki Akureyringa og var öðrum fremur ástæða þess að Haukar höfðu aðeins þriggja marka forskot þegar 30 mínútur höfðu verið leiknar.

Seinni hálfleikur byrjaði vel fyrir Hauka sem náðu fljótlega sjö marka forystu. Þar með var grunnurinn lagður að framhaldinu og heimamenn sigldu nokkuð þægilegum sigri í höfn.

Það bar helst til tíðinda í seinni hálfleiknum að Marius Aleksejev, markvörður Akureyrar fékk beint rautt spjald fyrir að sveifla fætinum í átt að leikmanni Hauka en við fyrstu sýn virkaði þetta atvik hið saklausasta og kannski ekki alveg verðskulda rautt spjald.

Af hverju unnu Haukar leikinn?

Haukar voru betri og eru reyndar einfaldlega með betra lið en Akureyri. Norðanmenn geta þó nagað sig í handarbökin, því að Haukar gáfu færi á sér en óðagot og klaufaskapur gestanna drap alla von um að ná í stig í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Adam Haukur Baumruk lék mjög vel og það hlýtur að vera þungu fargi af honum létt eftir erfiða byrjun í deildinni. Heimir Óli nýtti færin sín vel og Daníel Ingi er alltaf erfiður. Hjá Akureyri var markvörðurinn Arnar Þór stöðugur nánast allan leikinn og Hafþór Vignisson dró vagninn í sókninni.

Hvað gekk illa?

Það gekk óvenju illa hjá einum besta leikmanni Hauka, Atla Má Bárusyni. Kappinn skoraði ekki mark, missti boltann ítrekað og var sjalfum sér ólíkur a alla vegu. Hjá Akureyri gekk illa að tengja saman góða kafla. Liðið náði stuttum sprettum en aldrei nóg til að ógna Haukum að ráði.

Hvað gerist næst?

Haukar taka á móti óútreiknanlegu liði Fram á heimavelli sínum að Ásvöllum. Framarar hafa oft reynst Haukum erfiðir og þarna verður um hörkuleik að ræða.

Akureyringar fá heimaleik gegn sterku liði Aftureldingar og þurfa að eiga toppleik til að taka stig úr þeirri viðureign.

Gunnar: Nenni ekki að tala meira um þennan KA-leik

Það mátti sjá á Gunnari Magnússyni, þjálfara Hauka, að honum var létt eftir 30-25 sigur hans manna gegn Akureyri í kvöld. Þetta er fyrsti sigur Hauka í deildinni en lærisveinar Gunnars biðu afhroð í síðustu umferð gegn KA, 31-20.

„Þetta er búin að vera löng vika og dagarnir hafa liðið hægt. Við erum búnir að bíða eftir að komast aftur á völlinn og svara fyrir síðasta leik. Það var bara hrikalega mikilvægt að ná í tvö stig og fá jafnframt fyrsta sigurinn í hús,“ sagði Gunnar eftir leik.

„Ég er bara ánægður með strákana.Þetta var þolinmæðisverk og vantaði alltaf herslumuninn að hrista þá af okkur. Alltaf þegar við fengum möguleikann, þá komu þeir aftur og gerðu okkur erfitt fyrir. Við náðum að halda haus allan leikinn og unnum þetta frekar sannfærandi að lokum.”

Hvað skyldi hafa glatt Gunnar mest í þessum sigri?

„Varnarleikurinn var góður og við náðum að refsa þeim í kjölfar sterkrar varnar, sérstaklega í fyrri hálfleik. Sóknarlega var þetta ágætt og við sáum margar góðar sóknir. Með örlítið betri nýtingu, hefðum við slitið þá fyrr af okkur en við sköpum fín færi og ég er bara sáttur.”

Miklu munaði fyrir Hauka að fá Adam Hauk Baumruk sterkan inn í sóknina en hann hefur verið slakur hingað til.

„Já, hann hefur verið góður á æfingum og ég veit alveg hvað hann getur. Ég setti hann í byrjunarliðið í dag og hann svaraði með góðum leik.”

Fannst Gunnari umræðan eftir síðasta leik kannski snúast aðeins of mikið um hversu lélegir Haukar voru, frekar en að gefa KA verðskuldað hrós?

„Við vorum bara lélegir í síðasta leik og sennilega var þetta einn lélegasti leikur sem ég hef lent í á mínum ferli sem þjálfari. KA menn voru frábærir en annars er ég bara að reyna að komast yfir þennan leik og nenni ekki mikið að tala meira um þennan KA-leik. Nú horfum við fram á veginn,“ sagði Gunnar einbeittur að lokum.

Sverre: Við erum á réttri leið

„Okkar eigin tæknifeilar urðu okkur rosalega dýrir í dag. Í hvert einasta skipti sem við náðum að minnka muninn í 2-3 mörk, þá förum við illa með færi og gerum nákvæmlega það sem við vorum búnir að ræða fyrir leikinn að við mættum ekki gera.”

„Þar vantar bara meiri einbeitingu og hugsanlega smá trú. Það var samt margt jákvætt og við erum alveg á réttri leið. Nú er tveggja vikna hlé á deildinni og við nýtum þann tíma vel,“ sagði Sverre Jakobsson eftir tap Akureyrar gegn Haukum.

Akureyri er enn án stiga og Sverre veit nákvæmlega hversu erfið deildin er í vetur.

„Hvert verkefni er bara skemmtileg áskorun. Það er okkar að búa til samkeppnishæft lið með öllum ráðum. Við höfðum trú á þessu í fyrstu, annarri og þriðju umferð og við erum ekkert að hræðast verkefnið sko. Það þarf margt að ganga upp en við erum að vinna í því að komast á réttan stað.”

Markvörðurinn Marius Aleksejev fékk beint rautt spjald fyrir að sparka í átt að leikmanni Hauka. Hvað fannst Sverre um þann dóm?

„Ég sé þetta bara hreinlega ekki og er ekki dómbær á þetta. Þetta þarf að vera mjög afgerandi, að maðurinn sé hættur í stöðunni sinni og gefi síðan eitthvað spark, til þess að dómararnir gefi rautt spjald. Ég ætla bara að sjá þetta fyrst almennilega áður en ég verð alveg brjálaður eða samþykki dóminn,” sagði Sverre brosandi.

 

Heimir: Skemmtilegt að skora!

Línumaðurinn Heimir Óli Heimisson lék vel hjá Haukum og skoraði sex mörk í sex skotum.

„Sigurinn var mjög mikilvægur. Þetta var svolítið þungt en við unnum og það er fyrir öllu. Það var bara flott fyrir okkur eftir afhroðið fyrir norðan um síðustu helgi að svara með ágætum sigri í dag.“

„Ég var ánægðastur með vörnina í dag og svo var líka mjög skemmtilegt að skora nokkur mörk! Vörnin okkar var heilt yfir ágæt og við unnum eftir ákveðnu konsepti sem gekk vel.“

Heimir segir Haukaliðið þurfa smá tíma til að slípa sig saman.

„Þó að okkur sé spáð mikilli velgengni í vetur, þá eru tveir nýjir leikmenn hérna sem þurfa að læra aðeins inn á vörnina okkar. Það gekk rosa vel á undirbúningstímabilinu en hefur kannski ekki gengið nógu vel í deildinni hingað til. Þetta er klárlega skref í rétta átt.“

„Nú kemur hlé í hálfan mánuð. Við bara æfum og bætum okkar leik enn meira,“ sagði línutröllið ljúfa að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira