Tvö mörk á þremur mínútum gerðu út um Everton

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lacazette og Aubameyang skoruðu mörk Arsenal
Lacazette og Aubameyang skoruðu mörk Arsenal vísir/getty
Arsenal hélt hreinu í fyrsta skipti á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið lagði Everton á heimavelli sínum í lokaleik sjöttu umferðar.

Eftir fremur rólegan fyrri hálfleik þar sem bæði lið fengu þó sín færi komst Arsenal yfir snemma í seinni hálfleik.

Frakkinn Alexandre Lacazette skoraði með glæsilegu marki, einu af mörkum tímabilsins til þessa. Hann var með boltann utarlega í teignum og smurði hann glæsilega upp við samskeytin á fjær, í stöngina og inn. Algjörlega óverjandi fyrir Jordan Pickford.

Aðeins þremur mínútum seinna skoraði Arsenal annað mark sem átti þó aldrei að standa.

Mesut Özil komst einn á móti Pickford en ákvað að skjóta ekki sjálfur heldur lagði boltann á Aaron Ramsey sem var með honum í teignum. Ramsey rann á boltanum en náði að koma honum á Pierre-Emerick Aubameyang sem skoraði.

Þegar Ramsey kom við boltann var Aubameyang hins vegar langt fyrir innan og hefði átt að vera dæmdur rangstæður.

Þessi tvö mörk á svo stuttum kafla gerðu út um leikinn. Everton reyndi undir lok leiksins að ná að koma marki inn en tókst ekki, 2-0 niðurstaðan á Emirates.

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði allan leikinn fyrir Everton.

Arsenal er nú í sjötta sæti deildarinnar, Everton situr í tólfta sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira