Enski boltinn

Zaha: Tíminn hjá United var helvíti

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Zaha í leik með United í enska deildarbikarnum árið 2013
Zaha í leik með United í enska deildarbikarnum árið 2013 vísir/getty
Wilfried Zaha segist hafa gengið í gegnum „helvíti“ þegar hann var á mála hjá Manchester United.

Zaha var síðasti leikmaðurinn sem Sir Alex Ferguson fékk til Manchester United þegar hann skrifaði undir samning við United í janúar 2013. Zaha kláraði það tímabil á láni hjá uppeldisfélaginu Crystal Palace en flutti til Manchester sumarið 2013 þegar David Moyes tók við United.

„Ég fór í gegnum svo mikið hjá United og enska landsliðinu,“ sagði Zaha við Shortlist.

„Það voru sögusagnir um að ástæðan fyrir því að ég fékk lítið að spila fyrir United var að ég hefði sofið hjá dóttur David Moyes. Enginn hjá félaginu reyndi að leiðrétta það og ég þurfti að berjast fyrir sannleikanum sjálfur.“

„Ég þurfti að eiga við þetta 19 ára gamall, aleinn í Manchester. Ég bjó langt í burtu frá öllum því félagið réði því hvar ég bjó. Þeir útveguðu mér ekki bíl þrátt fyrir að allir hinir leikmennirnir fengu bíl, ég fékk ekkert.“

Zaha spilaði aðeins fjóra leiki fyrir United áður en kann var sendur á lán til Cardiff þar sem hann kláraði tímabilið 2013-14. Hann snéri svo aftur til uppeldisfélagsins tímabilið þar á eftir.

„Ég fékk nóg af peningum hjá United en ég var svo niðurdreginn og þunglyndur. Fólk heldur að lífið sé öðruvísi þegar þú átt peninga og frægð svo það kemur ekki eins fram við þig,“ sagði Wilfried Zaha.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×