Íslenski boltinn

Krísa í Fram: „Stjórnarmenn sjást ekki nema þegar vel gengur”

Anton Ingi Leifsson skrifar
Pedro Hipolito er þjálfari Fram.
Pedro Hipolito er þjálfari Fram. vísir/ernir
Guðmundur Magnússon, fyrirliði og sóknarmaður Fram, var ekki upplitsdjarfur í viðtali við Fótbolta.net eftir síðasta leik liðsins í Inkasso-deildinni í dag.

Fram tapaði enn einum leiknum er liðið tapaði 3-1 á heimavelli fyrir Víkingi úr Ólafsvík en Fram endar Inkasso-deildina í níunda sæti deildarinnar.

Eins og Vísir greindi frá á dögunum þá hætti öll stjórn Fram á einu bretti á dögunum og er útlitið dökkt yfir félaginu. Guðmundur tók undir það.

„Það er bara allt í rugli. Við stöndum rosalega mikið einir í þessu. Leikmenn eru að ganga í verk sem þeir eiga ekki að vera að gera,” sagði Guðmundur við Fótbolta.net og hélt áfram:

„Stjórnarmenn og aðrir sem eru í kringum félagið sjást ekki á svæðinu nema þegar vel gengur. Umgjörðin er eins og hún er og þetta er bara pirrandi.”

„Að fá engan stuðning er bara pirrandi og það kemur auðvitað bara í hópinn. Það sést á okkur að við erum pirraðir. Menn eru að halda áfram en þeir eru ekki að fá borgað, útlendingarnir eru ekki að fá borgað og þá kannski leggja þeir minna á sig. Ég veit það ekki.”

Pedro Hipolito, þjálfari Fram, hefur fengið einhverja gagnrýni á sig en Guðmundur segir að hann eigi ekki skilið gagnrýnina.

„Ég held að fólk geti ekki ímyndað sér vinnuna sem hann leggur á sig. Hann er að taka á sig markmannsþjálfun, styrktarþjálfun og hann ver okkur leikmennina í gegn.”

Viðtalið má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×