Erlent

Gagnrýnir Bandaríkin eftir mannskæða skotárás

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hassan Rouhani, forseti Írans, var ómyrkur í máli þegar hann talaði um hvern ætti að gera ábyrgan fyrir skotárásinni í Ahvaz.
Hassan Rouhani, forseti Írans, var ómyrkur í máli þegar hann talaði um hvern ætti að gera ábyrgan fyrir skotárásinni í Ahvaz. Vísir/Getty
Hassan Rouhani, forseti Írans, hefur gagnrýnt bandarísk stjórnvöld harðlega eftir mannskæða skotárás sem gerð var á hersýningu í borginni Ahvaz í gær. Þetta kemur fram á vef BBC.

25 létust í árásinni en meðal þeirra sem létust voru blaðamenn og almennir borgarar, yngst fórnarlambanna var fjögurra ára gömul stúlka. FulltRúar hins íslamska ríkis, ISIS, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni en það hafa and-arabískir andstæðingar írönsku ríkisstjórnarinnar einnig gert. Hvorugur hópanna hefur þó getað sannað mál sitt, svo erfitt er að fullyrða nokkuð um hver stendur að baki voðaverkinu.

Rouhani sagði að „yfirgangsSeggurinn“ Bandaríkin, ásamt nágrannaríkjum Írans við Persaflóa, hefðu gert árásarmönnunum kleift að fremja árásina. 

Rouhani og Donald Trump Bandaríkjaforseti munu mætast á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna seinna í vikunni, og ljóst er að þessi orð Íransforseta verða ekki til þess að liðka fyrir nú þegar ansi stirðum samskiptum milli Írans og Bandaríkjanna.

Áður en Rouhani hélt til New York, hvar allsherjarþingið er haldið, hét hann því að Íran myndi ekki „leyfa þessum glæp að standa.“ Þá sagði forsetinn deginum ljósara hverjir hafi framið voðaverkin og hverjum þeir tengdust.

„Hin smáu strengjabrúðuríki á svæðinu eru studd af Bandaríkjamönnum, sem espa þau upp og veita þeim bolmagnið sem nauðsynlegt er til slíkra verka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×