Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Afturelding 29-29 │Dramatík í Iðu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir í Hleðsluhöllinni og Selfossi skrifa
vísir/bára
Selfoss og Afturelding skildu jöfn í hörkuleik í Hleðsluhöllinni í Iðu í Olís deild karla í kvöld. Afturelding var með yfirhöndina megnið af fyrri hálfleik en leikurinn var jafn og spennandi til loka.

Heimamenn byrjuðu betur en gestirnir úr Mosfellsbæ tóku fljótlega yfirhöndina. Þeir komust mest fjórum mörkum yfir um miðjan fyrri hálfleik. Þá breytti Patrekur Jóhannesson um skipulag í vörninni og Selfyssingar komust aftur inn í leikinn. Afturelding var 13-15 yfir í hálfleik.

Gestirnir héldu forystunni inn í seinni hálfleikinn en heimamenn jöfnuðu á 52. mínútu og eftir það var leikurinn í járnum. Eftir dramatík á loka mínútunni þar sem Afturelding fékk aukakast þegar fjórar sekúndur voru eftir en Pawel Kiepulski varði frá Birki Benediktssyni skildu liðin jöfn 29-29.

Af hverju varð jafntefli?

Liðin sem mættust hér í kvöld hafa bæði byrjað tímabilið virkilega vel og eru vel spilandi handboltalið. Varnarleikur beggja liða var mest af til fyrirmyndar og þegar uppi var staðið eru liðin nokkuð jöfn að getu og skiluðu bæði fínustu frammistöðu.

Hverjir stóðu upp úr?

Arnór Freyr Stefánsson átti virkilega góðan leik í markinu hjá Aftureldingu. Undir lokin fór aðeins að halla á prósentutöluna hjá honum en það breytir því ekki að hann lokaði algjörlega fyrir markið á köflum og átti stórgóðan leik. Þá var Elvar Ásgeirsson óstöðvandi í sókninni og skoraði níu mörk.

Hjá Selfyssingum var markvarslan ekki eins áberandi en þó mjög góð, Pawel Kiepulski var með betri prósentutölu en Arnór. Þeir skiptu þó með sér markvörslunni, hann og Helgi Hlynsson. Elvar Örn Jónsson var hvað öflugastur útileikmanna Selfyssinga.

Hvað gekk illa?

Það var fátt sem var áberandi ábótavant í leiknum. Selfyssingar áttu stundum í smá vandræðum með að koma boltanum í netið, ekki síst vegna þess hve vel Arnór lokaði markinu. Höndin fór nokkuð oft upp hjá dómurunum yfir sóknum Aftureldingar, sérstaklega í upphafi leiks, en þeir náðu þó oftar en ekki að skora.

Hvað gerist næst?

Nú er landsleikjahlé í deildinni og því fer næsta umferð ekki fram fyrr en 7. október. Áður en að henni kemur fer Selfoss hins vegar í næstu umferð EHF bikarsins.

Patrekur þurfti að sætta sig við stig í dagvísir
Patrekur: Annað mál hvort við hefðum átt bæði stigin skilið

„Mér fannst við byrja ágætlega varnarlega, vorum þéttir, en sóknarlega vorum við ekki nógu góðir fannst mér. Við vorum að klikka og fara svolítið úr skipulagi miðað við hvað við ætluðum að gera,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, í leikslok.

„Við vorum svolítið að elta Aftureldingu og jú, ég er ánægður með eitt stig úr því sem komið var.“

Selfyssingar voru komnir í smá holu í fyrri hálfleik þegar Patrekur breytir um varnarskipulag og þeir ná að vinna sig inn í leikinn aftur.

„Það er stundum taktík að breyta ekki neitt og bíða eftir því að vörnin virki. En ég viðurkenni það alveg að ég breytti mjög mikið í þessum leik.“

„Við hefðum líka getað fengið bæði stigin, en hvort við hefðum átt það skilið, það er annað mál. Afturelding spilaði vel. Þeir héngu lengi á boltanum og voru agaðir og refsuðu með hraðaupphlaupum.“

Hvað er það helsta sem Patrekur tekur úr leik sinna manna? „Erfitt að segja til núna strax, en við þurfum bara að fara vel yfir þetta. Núna eru þrír leikir búnir og við erum með fimm stig.“

„Evrópukeppnin er næsta verkefni í Slóveníu, þá koma fimm leikir á einhverjum fimmtán dögum,“ sagði Patrekur Jóhannesson.

 

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.vísir/eyþór
Einar Andri: Get ekkert kvartað

„Við hefðum getað unnið þennan leik. Við spiluðum frábæran leik og vorum í stöðu í lokin til þess að vinna,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir leikinn.

„Ég held við höfum verið yfir allan leikinn, þeir náðu að jafna í seinni hálfleik, þannig að ég er rosalega ánægður með spilamennskuna og hvað við settum í þetta. Ég get ekkert kvartað, það er alveg ásættanlegt að taka stig hérna. En miðað við spilamennskuna hefðum við getað unnið.“

Afturelding var komin í mjög vænlega stöðu í fyrri hálfeik en Selfyssingar náðu að koma til baka. Hvað fór úrskeiðis hjá Aftureldingu sem hleypti þeim aftur inn í leikinn?

„Ég veit það nú ekki. Selfoss er gott lið og það er erfitt að svara þessu. Þeir héldu áfram, brottvísanir og svona sem settu aðeins strik í reikninginn hjá okkur. En heilt yfir fannst mér spilamennskan vera mjög góð.“

Arnór Freyr átti mjög góðan leik í markinu og varði oft mikilvæga bolta. 

„Já, hann var frábær. Vörnin var líka mjög góð og allir með framlag. Hrikalega góð liðsheild og svo vorum við með menn að stíga upp, ég er hrikalega sáttur með framlagið hjá öllum í dag,“ sagði Einar Andri Einarsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira