Sport

Serena ósátt við játningu þjálfarans

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Williams er ekki sátt við þjálfara sinn
Williams er ekki sátt við þjálfara sinn vísir/getty
Serena Williams er ósátt við ummæli þjálfara síns eftir úrslitaleik Opna bandaríska meistaramótsins í tennis þar sem hann sagðist hafa gefið henni bendingu og játaði þar með brotið sem vatt all verulega upp á sig í viðureigninni frægu.

Williams fékk refsingu fyrir að þjálfari hennar virtist gefa henni bendingu á meðan leik stóð, en þjálfarinn má ekki þjálfa á meðan leik stendur. Williams var ósátt við dóminn og hún fékk svo frekari refsingu fyrir að brjóta spaðann sinn og kallaði dómarann þjóf.

Eftir að viðureigninni var lokið, Williams tapaði fyrir hinni japönsku Naomi Osaka, sagði þjálfari Williams, Patrick Mouratoglou, að hann hafi verið að gefa Williams bendingu.

„Ég skil ekki hvað hann er að tala um,“ sagði Wiliams við áströlsku sjónvarpsstöðina Ten. „Ég spurði hann hvað hann væri að tala um. Við erum ekki með nein merki og bendingar og höfum aldrei verið.“

„Hann sagðist hafa gefið bendingu. Ég skil það ekki. Ég var á hinum enda vallarins og sá ekki bendinguna. Ég held þetta hafi bara verið mjög undarlegt augnablik fyrir hann.“

Williams var sektuð 17 þúsund dollara fyrir refsingarnar þrjár sem hún hlaut í leiknum.

„Ég vil bara jafna mig og skilja þetta eftir í baksýnisspeglinum,“ sagði Serena Williams.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×