Enski boltinn

Hazard: Auðvelt að segja að Sarri sé frábær þegar gengið er gott

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hazard og Sarri ræða saman
Hazard og Sarri ræða saman vísir/getty
Chelsea hefur byrjað vel í ensku úrvalsdeildinni undir stjórn nýs knattspyrnustjóra Maurizio Sarri. Ein stærsta stjarna Chelsea hrósar knattspyrnustjóranum, en segir þó að það eigi eftir að koma í ljós hvernig Ítalinn bregst við slæmu gengi.

Belginn Eden Hazard er einn besti leikmaður heims og er stærsta nafnið í liði Chelsea. Samkvæmt sögusögnunum var samband Hazard og fyrrum stjóra Chelsea Antonio Conte orðið mjög slæmt og ætlaði Belginn til Real Madrid í sumar.

Hazard ákvað hins vegar að vera áfram hjá Chelsea og hefur farið mjög vel af stað, er með fimm mörk og tvær stoðsendingar í sex leikjum í deildinni.

Hann segist njóta lífsins undir stjórn Sarri.

„Við reynum að halda boltanum og þegar þú ert sóknarmaður þá viltu vera sem mest með boltann. Við búum til mikið af sendingum og færum. Við vorum í smá vandræðum gegn West Ham en mér finnst byrjunin á tímabilinu hafa verið frábær,“ sagði Hazard við Sky Sports.

„Hann er frábær stjóri, en það er auðvelt að segja það þegar þú vinnur leiki. Við munum sjá hvað gerist þegar við lendum í slæmum kafla, en hann er klárlega frábær stjóri og hefur sannað það.“

Chelsea á fram undan tvo leiki við Liverpool í röð. Fyrst í deildarbikarnum annað kvöld og svo í úrvalsdeildinni á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×