Innlent

Leyfa fjölmiðlum að mynda dómsuppkvaðningu í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómarar í Hæstarétti Íslands.
Dómarar í Hæstarétti Íslands. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur hefur ákveðið að heimila að fjölmiðlar megi taka upp hljóð og mynd þegar dómur verður kveðinn upp í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu á fimmtudag. Fjölmiðlar fá að mynda og taka upp hljóð þegar dómurinn verður kveðinn upp en síðan verður gert fimm mínútna hlé áður en dómar í öðrum málum verða kveðnir upp.

„Nú er ég bara búinn að vera hér í fjórtán ár og það hefur ekki verið gert á þeim tíma,“ segir Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar Íslands, í samtali við Vísi þegar hann er spurður hvort þetta hafi áður verið leyft.

Almennt er fjölmiðlum ekki leyft að mynda eða taka upp hljóð á meðan réttarhald fer fram.

Þorsteinn segir að beiðni hafi borist frá fréttastofu Ríkisútvarpsins um að fá að mynda og taka upp hljóð þegar dómur verður kveðinn upp í þessu máli. Forseti Hæstaréttar og aðrir dómarar í málinu fóru yfir þá beiðni og ákváðu að leyfa það og gildir það leyfi því fyrir aðra fjölmiðla líka.

Um er að ræða stærsta sakamál Íslandssögunnar en 44 ár eru frá því að þeir Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson hurfu sporlaust en alls voru sex sakfelldir vegna málsins. Var málið tekið upp að nýju fyrir Hæstarétti þar sem farið er fram á sýknu yfir sexmenningunum og verður dómur kveðinn upp á fimmtudag. 

Þorsteinn segist þekkja eitt fordæmi þar sem ákveðið var að leyfa fjölmiðlum að mynda og taka upp hljóð við dómsuppkvaðningu en það var þegar dómur var kveðinn upp yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í Landsdómi í apríl árið 2012. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×