Enski boltinn

Pogba verður aldrei aftur fyrirliði undir stjórn Mourinho

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sambandið þarna á milli er ekkert sérstakt.
Sambandið þarna á milli er ekkert sérstakt. vísir/getty
Jose Mourinho, stjóri Manchester United, hefur sagt við Paul Pogba að hann muni aldrei aftur bera fyrirliðaband Manchester United undir sinni stjórn.

Pogba var tilkynnt þetta fyrir bikarleikinn gegn Derby en liðin mætast á Old Trafford í Carabao-bikarnum. Flautað verður til leiks klukkan nítján í kvöld.

Mourinho var afar ósáttur með framgöngu nokkra leikmanna liðsins gegn Wolves og sagði í viðtali eftir leikinn að þeir hafi ekki lagt sig fram.


Portúgalinn nefndi engin nöfn en sögurnar segja að hann hafi verið að tala um Pogba. Hans viðhorf hafi ekki verið til fyrirmyndar.

„Leikurinn gegn Wolves var mikilvæg lexía. Lexía sem ég tala um í viku eftir viku eftir viku en sumir strákana skilja þetta ekki,” sagði Mourinho og bætti við:

„Öll lið sem spila gegn United eru að spila leik lífs síns. Við þurfum að bæta þeim í dugnaði og ákveðni. Að spila á 95% hraða er ekki nóg þegar aðrir eru að gefa sig 101% í þetta.”

Eftir sama leik sagði Pogba að hann vildi að liðið myndi sækja meira og segir að það myndi henta liðinu betur. Það hefur væntanlega ekki farið vel í Mourinho.

„Við erum á heimavelli og eigum að spila mun betur en þetta gegn Wolves. Við erum hérna til þess að sækja og þegar við gerum það þá verður þetta auðveldara fyrir okkur,” sagði Frakkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×