Innlent

Rúmar 100 milljónir fóru í braggann í Nauthólsvík án útboðs

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Kostnaður við braggann fór yfir 400 milljónir.
Kostnaður við braggann fór yfir 400 milljónir. Fréttablaðið/Anton Brink
Stærstur hluti innkaupa borgarinnar á fyrstu sex mánuðum ársins án útboðs var vegna framkvæmda við Nauthólsveg 100, sem er betur þekktur sem bragginn í Nauthólsvík. Mikið hefur verið fjallað um braggaframkvæmdina sem fór mörg hundruð milljónir fram úr áætlun. Kostnaður við hann endaði í 404 milljónum.

Eyþór Arnalds, gagnrýndi hinn óútskýrða kostnað.
Fréttablaðið greindi frá því í gær að á fyrstu sex mánuðum ársins hefði Reykjavíkurborg keypt sérfræðiþjónustu og ýmis önnur vörukaup án útboðs fyrir ríflega 574 milljónir, sem samsvarar ríflega 7 prósentum af heildarinnkaupum á tímabilinu.

Samkvæmt sundurliðuðu yfirliti yfir innkaup borgarinnar yfir 1 milljón króna, sem blaðið hefur undir höndum, má sjá að af þessum 574 milljónum sem keypt var fyrir án útboðs, voru ríflega 102 milljónir vegna braggans umdeilda við Nauthólsveg; tæpar níu milljónir í kaup á sérfræðiþjónustu frá Secur­itas, verkfræðistofunni Eflu og arkitektastofunni Arkibúllunni. 

Mest munar um greiðslu til verktaka og fyrirtækja vegna svokallaðra „annarra vörukaupa“ sem nema ríflega 93 milljónum. Hæstar greiðslur eru til Smiðsins þíns slf. upp á rúmlega 31 milljón og Rafrúnar ehf. upp á rúmar 23 milljónir.

Aðrar framkvæmdir sem útheimtu töluverð útgjöld hjá borginni utan útboðs á tímabilinu voru vegna breytinga á Perlunni, alls ríflega 58 milljónir. Hæsta greiðslan vegna kaupa á sérfræðiþjónustu þar er til verkfræðistofunnar Verkís hf. upp á tæpar 27 milljónir sem sér um framkvæmdirnar.


Tengdar fréttir

Ekki hægt að slá neinu föstu um mistök

Borgarstjóri telur eðlilegt að skoða hvort húsafriðunaryfirvöld taki þátt í kostnaði við endurbætur á byggingum með sögulegt gildi. Endurbætur við gamlan bragga í Nauhólsvík hafa farið 257 milljónum króna fram úr áætlun. Forstöðumaður Minjastofnunar segist enga kröfu hafa gert um að haldið yrði í braggann.

Hálfur milljarður án útboðs í borginni

Á fyrstu sex mánuðum ársins námu innkaup Reykjavíkurborgar án útboðs ríflega 574 milljónum króna. Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við kostnaðinn í innkauparáði. Oddviti Sjálfstæðisflokksins krefst skýringa. Borgarstjóri vildi ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×