Enski boltinn

Leikmenn United fengu nærri 300 milljónir punda í laun

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sanchez er sagður vera best launaði leikmaður Englands
Sanchez er sagður vera best launaði leikmaður Englands vísir/getty
Manchester United eyðir meira í launakostnað en nokkuð annað félag á Englandi. Félagið er hársbreidd frá því að brjóta 300 milljón punda múrinn í fyrsta skipti.

Samkvæmt ársreikningi félagsins eyddi United 295,6 milljónum punda í laun leikmanna á síðasta tímabili. Þetta kemur fram í grein The Times.

Nágrannarnir og helstu keppinautarnir í Manchester City komast þeim næst með 259,6 milljónir punda. Sú upphæð er minni en launakostnaður United var tímabilið 2016-17, tímabil þegar United var ekki í Meistaradeild Evrópu.

Launakostnaður United hækkaði um 12,3 prósent á milli tímabila. Sú hækkun er sögð vera vegna bónusgreiðsla til leikmanna fyrir að komast í Meistaradeildina. Þá hefur koma Alexis Sanchez haft sitt að segja, hann er sagður hafa tæp 400 þúsund pund í vikulaun.

Manchester United er í sjöunda sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir sex umferðir og datt úr leik í þriðju umferð enska deildarbikarsins í gærkvöld. Liðið vann fyrsta leik sinn í Meistaradeild Evrópu, en hefur annars byrjað tímabilið illa.

Samkvæmt frétt The Times á United von á því að á tímabilinu fá félagið allt að 630 milljónir punda í tekjur. Tekjur félagsins á síðasta tímabili voru 590 milljónir punda, þær hæstu í sögu félagsins. Á sama tíma halaði City inn 500 milljónum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×