Erlent

Faldi andvana barn sitt í skáp í fimm ár

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skápar á borð við þann sem konan notaðist við. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Skápar á borð við þann sem konan notaðist við. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Getty/Tomohiro Ohsumi
Lögregla í Tokyo í Japan handtók 49 ára gamla konu sem grunuð er um að hafa skilið barn sitt, sem fæddist andvana, eftir í skáp í allt að fimm ár.

Konan, Emiri Suzaki, gaf sig fram við lögreglu og játaði að hafa falið lík barnsins í geymsluskáp í grennd við Uguisudani-lestarstöðina í Tokyo. Þá sagðist hún hafa falið líkið skömmu eftir að hún fæddi barnið andvana fyrir „fjórum eða fimm árum síðan“. Lögreglumenn fundu lík barnsins í plastpoka í skápnum, sem Suzaki hefur greitt fyrir afnot af síðustu ár.

BBC hefur eftir Kyodo News að Suzaki, lostin ofsahræðslu er hún sá að barnið var látið, hafi ekki fundist hún geta losað sig við líkamsleifar barnsins og því hafi hún ákveðið að koma þeim fyrir í skápnum. Hún sagðist hafa gefið sig fram við lögreglu eftir að hún skildi lykilinn að skápnum eftir heima hjá vini sínum og óttaðist að hann myndi komast á snoðir um leyndarmálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×