Enski boltinn

Carragher: Hvað hefur Everton fengið frá Gylfa fyrir þessar 45 milljónir?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson átti erfiðan dag á skrifstofunni um helgina.
Gylfi Þór Sigurðsson átti erfiðan dag á skrifstofunni um helgina. vísir/getty
Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool og einn af helstu sparkspekingum Sky Sports, var ekki alveg nógu ánægður með frammistöðu Gylfa Þór Sigurðssonar í leik Everton á móti Arsenal um helgina.

Gylfi er búinn að skora eitt mark og leggja upp eitt í fyrstu sex leikjum ensku úrvalsdeildarinnar en er þó á meðal efstu manna þegar kemur að því að skapa færi fyrir samherja sína. Þeir nýta þau bara ekki nógu vel.

„Sé litið á tölfræði Gylfa er hann bara lúxus leikmaður. Fjörutíu og fimm milljónir punda eru fullt af peningum fyrir félag eins og Everton. Það verður að fá meira frá honum,“ sagði Carragher um Gylfa.

Eftir að spila frekar vel framan af leiktíð hefur Gylfi aðeins dalað og var hann tekinn í gegn af sparkfræðingum Sky Sports eftir 2-0 tapið á Emirates um helgina.

„Við erum ekki að tala um ungan leikmann. Gylfi er 29 ára. Hann verður að gera hluti og gera þá núna. Hvað hefur Everton fengið frá Gylfa fyrir þessar 45 milljónir punda? Það er allavega ekki nóg,“ sagði Jamie Carragher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×