Sport

Stökk út úr sjúkrabílnum á leið á geðsjúkrahús

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Griffen hefur verið einn besti varnarmaður NFL-deildarinnar síðustu ár.
Griffen hefur verið einn besti varnarmaður NFL-deildarinnar síðustu ár. vísir/getty
Besti varnarmaður Minnesota Vikings, Everson Griffen, mun hvorki fá að æfa né spila með liðinu fyrr en hann hefur farið í sálfræðimat og tekið á sínum málum. Hegðun hans síðustu vikur hefur verið mjög furðuleg.

Hegðunin furðulega náði hámarki síðasta laugardag er hann lét öllum illum látum á hóteli í Minneapolis. Þá hótaði hann því að skjóta einhvern þó svo hann væri ekki með byssu.

Nú hefur komið í ljós að hegðun hans hefur verið einkennileg í margar vikur. Í lögregluskýrslu kemur fram að starfsmaður Vikings hafi staðfest að Griffen hafi verið mjög óstöðugur á æfingasvæðinu síðustu vikur. Með stuttan þráð og öskrandi á fólk í tíma og ótíma.

Eiginkona hans íhugar að fara frá honum en leikmaðurinn fór af heimili þeirra á dögunum um miðja nótt. Hann fór til liðsfélaga og kom ekki aftur fyrr en nokkrum dögum síðar. Hann sagði að Guð hefði sagt sér að standa upp og fara.

Fjölskylda Griffen óttast um öryggi sitt og Vikings hefur reynt að sjá til þess að hún sé örugg. Félagið hefur enda skikkað hann í meðferð.

Eftir heimsókn frá lögreglu samþykkti Griffen að fara á geðsjúkrahús. Sú ferð gekk ekki vel því Griffen hoppaði út úr bílnum á miðri leið þar sem hann óttaðist að einhver ætlaði að skjóta hann.

Griffen er kominn á geðsjúkrahús í dag og byrjaður í meðferð.

NFL

Tengdar fréttir

Leikmaður Vikings hótaði að skjóta mann á liðshótelinu

Besti varnarmaður Minnesota Vikings, Everson Griffin, spilaði ekki með liðinu um nýliðna helgi er Víkingunum var slátrað af Buffalo Bills. Þjálfari liðsins, Mike Zimmer, sagði að Griffen hefði ekki spilað af persónulegum ástæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×