Innlent

Bróðir Ragnars og Vals segir dóminn fáránlegan

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Guðni Lýðsson segir sjö ára dóminn yfir Vali bróður sínum vægan.
Guðni Lýðsson segir sjö ára dóminn yfir Vali bróður sínum vægan. Vísir
Guðni Lýðsson, hálfbróðir Ragnars og Vals Lýðssonar, segir alltaf hafa verið gott á milli þeirra bræðra. Hann telur dóminn yfir Vali of vægan því menn eigi að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Um mikinn fjölskylduharmleik sé að ræða.

Valur var á mánudaginn í Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem leiddi til dauða Ragnars.

„Ragnar var ósköp venjulegur og ljúfur maður. Gamansamur og skemmtilegur í umgengni,“ segir Guðni.

Mikið hefur verið fjallað um málið en það var 31. mars á Gýgjarhóli II í Biskupstungum sem Ragnari var ráðinn bani.

Guðni er einn fjögurra bræðra, Lýðssona. Til viðbótar er Örn sem var á Gýgjarhóli nóttina örlagaríku en sofnaður þegar árásin átti sér stað.

Guðni segir Ragnar bróður sinn hafa haft gaman af lífinu.

Ímyndaði sér tólf ára dóm

„Já, og sá spaugilegu hliðarnar á lífinu,“ segir Guðni. Þeir bræður Ragnar og Valur hafi verið ólíkir. Valur hafi verið öðruvísi.

„Ekki alveg jafn skarpgreindur og klár á mörgum sviðum. Tók einhverjar skoðanir beint upp á sig og vann þá í þeim hreint í botn,“ segir Guðni. Hann sé þó klár og skynsamur maður. Atburðarásin á Gýgjarhóli II hafi komið honum mjög á óvart.

Valur Lýðsson í dómsal ásamt verjanda sínum.Vísir/Vilhelm
Beðinn um lýsa eigin líðan finnst honum eins og hann sé á einhvern hátt tognaður upp eftir öllum líkamanum.

Gott hafi verið á milli þeirra bræðra og þeim öllum samið vel.

„Já já, það var aldrei neitt að því.“

Guðni er þó ósáttur við dóminn. Saksóknari fór fram á sextán ára fangelsisdóm yfir Vali fyrir manndráp en niðurstaðan var sjö ára fangelsi. Sonur Ragnars er mjög ósáttur við dóminn og Guðni tekur undir það.

„Mér finnst hann alveg fáránlegur. Ég var búinn að ímynda mér tólf ár,“ segir Guðni. Hann eigi erfitt með að útskýra hvaða hug hann beri til Vals þessa stundina.

„Það er ekki gott að segja. Mér finnst að hver eigi að taka afleiðingum gjörða sinna. Maður vorkennir honum að sumu leyti en þetta er náttúrulega hlutur sem hann gerði og verður að taka sínum afleiðingum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×