Innlent

Fjórar flugfreyjur leituðu á heilbrigðisstofnun með höfuðverk og þreytueinkenni

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Vísir/Vilhelm
Fjórir starfsmenn Icelandair, sem voru í áhöfn um borð í vél flugfélagsins sem kom til landsins frá Edmonton snemma í morgun, leitaði á sjúkrahús vegna óþæginda, höfuðverks og þreytueinkenna. Þetta staðfestir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, í samtali við fréttastofu.

„Þetta er eitthvað sem kemur öðru hverju upp og hjá flugfélögum,“ segir Jens. Hann segir uppákomur sem þessa yfirleitt tengjast lélegu loftflæði í vélinni sem rekja megi til stífla í loftræstikerfi. Áhafnarmeðlimirnir leituðu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem þeir gengust undir blóðprufu.

Aðspurður segir Jens atvikið ekki hafa verið tilkynnt til Rannsóknarnefndar samgönguslysa enda telji flugfélagið uppákomuna ekki uppfylla skilyrði til þess að þess þurfi. Hann segir uppákomuna þó ekki ósvipaða þeirri sem upp kom í sumar en að því er Mannlíf greinir frá hafa minnst þrjár flugfreyjur verið óvinnufærar eftir að þær veiktust í vinnunni.

Ragnar Guðmundsson, rannsakandi á flugsviði Rannsóknarnefndar samgönguslysa, segir að aðeins sé gerð krafa um tilkynningar til nefndarinnar þegar um er að ræða flugslys eða alvarleg flugatvik. Þannig ætti að tilkynna um atvik sem þessi ef flugmaður hefði fundið fyrir samskonar einkennum, en svo var ekki í þessu tilfelli. Aftur á móti hafi sambærileg tilvik ítrekað komið upp að undanförnu að sögn Rangars sem sum hver hafi haft í för með sér langvarandi afleiðingar og hafi því verið tekin til rannsóknar hjá nefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×