Erlent

Vopnaður maður særði sjö manns í París

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögregluborði á vettvangi árásarinnar í París.
Lögregluborði á vettvangi árásarinnar í París. Vísir/AP
Sjö eru særðir, þar af fjórir alvarlega, eftir að maður vopnaður hnífi og járnstöng gekk berserksgang í París í gærkvöldi. Maðurinn var handtekinn en lögregla rannsakar árás hans ekki sem hryðjuverk að svo stöddu.

Árásin átti sér stað við bakka Ourcq-skurðarins í 19. hverfi borgarinnar. Maðurinn, sem er talinn vera Afgani, stakk upphaflega tvo menn og konu nærri MK2-kvikmyndahúsinu. Síðan réðist hann að tveimur breskum ferðamönnum í nærliggjandi götu.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC henti fólk sem var að spila leikinn pétang kúlum í manninn til að reyna að stöðva hann.

„Um tuttugu manns eltu hann. Þeir byrjuðu að kasta pétangkúlum í hann. Um fjórar eða fimm kúlur lentu í höfðinu á honum en þeim tókst ekki að stöðva hann,“ segir Youssef Najah sem varð vitni að árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×