Viðskipti innlent

Hætta að rukka í göngin 28. september

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Margir kannast við þessa stöðu.
Margir kannast við þessa stöðu. Vísir/Jói
Spölur stefnir að því að afhenda Vegagerðinni Hvalfjarðargöng til eignar og rekstrar sunnudaginn 30. september 2018. Innheimtu veggjalds yrði þá hætt föstudaginn 28. september.

Fram kemur í tilkynningu á vef Spalar að stjórn félagsins hafi tilkynnt hluthöfum þessa ákvörðun sína. Jafnframt er þó tekið fram að „tímasetningin sé kynnt að þeim forsendum gefnum að Ríkisskattstjóri fallist á tiltekna meðferð á skattalegri afskrift ganganna og í öðru lagi að Samgöngustofa skili fyrirvaralausri úttekt á göngunum í aðdraganda eigendaskiptanna.“

Spölur segist ætla á næstu mánuðum að gera upp við viðskiptavini sína. Til að mynda að taka við veglyklum gegn 3.000 króna skilagjaldi, taka við og endurgreiða ónotaða afsláttarmiða og greiða út inneignir á áskriftarreikningum notenda veglykla.

Viðskiptavinir hafa frest til 30. nóvember til að skila veglyklum og afsláttarmiðum. Áskriftarsamningar Spalar eru liðlega 20 þúsund og yfir 53 þúsund veglyklar eru í umferð.

„Í ljósi þess að uppgjörsmálin skipta tugum þúsunda áskilur Spölur sér lengri frest en 30 daga til að afgreiða þau öll. Starfsfólk á skrifstofu félagsins vinnur að uppgjöri og frágangi til loka ársins og sumir fram á nýtt ár.

Spölur sendir ekki lengur út reikninga til viðskiptavina sinna vegna áskriftarferða. Þeir sem hafa nýtt alla inneignir sínar á áskriftarreikningum fá reikning í október fyrir ferðum sínum í september,“ segir á vef Spalar.


Tengdar fréttir

Hefur starfað í gjaldskýlinu frá fyrsta degi

Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær ríkið tekur við rekstri Hvalfjarðarganga en fundað var um málið í morgun þar sem ræddar voru útfærslur á því hvernig göngin verða afhent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×