Erlent

Raun­veru­leika­sjón­varps­stjarna féll út­byrðis af skemmti­ferða­skipi og talin látin

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Daniel Kublböck.
Daniel Kublböck. Vísir/Getty
Björgunarsveitir og lögregla hafa hætt leit að þýska söngvaranum Daniel Kublböck sem féll útbyrðis af skemmtiferðaskipi á sunnudagsmorgun við strendur Kanada. Greint er frá á vef BBC.

Málið er nú rannsakað sem mannshvarf en Kublböck féll útbyrðis er skipið var á siglingu í átt að borginni St. Johns á Nýfundnalandi. Í yfirlýsingu frá kanadískum björgunaraðilum segir að „erfið ákvörðun“ hafi verið tekin um að hætta leitinni í morgun. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að afar litlar líkur séu á því að maður, sem falli útbyrðis við strendur Kanada á þessum tíma árs, lifi fallið af.

Skemmtiferðaskipið AidaLuna var á sextán daga siglingu og sigldi úr höfn í Hamborg þann 29. ágúst síðastliðinn.

Daniel Kublböck er 33 ára og skaust upp á stjörnuhimininn í Þýskalandi í raunveruleikaþættinum Germany Seeks the Superstar árið 2003. Hann hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum raunveruleikaþáttum í heimalandi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×