Innlent

Þrír fluttir á sjúkrahús eftir árekstur á Vesturlandsvegi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þrír sjúkrabílar voru sendir á vettvang auk dælubíls.
Þrír sjúkrabílar voru sendir á vettvang auk dælubíls. Vísir/Pjetur
Þrír voru fluttir slasaðir á sjúkrahús eftir árekstur tveggja bíla á Vesturlandsvegi við Leirvogstungu í Mosfellsbæ á áttunda tímanum í kvöld. Tveir hlutu minniháttar meiðsl en sá þriðji er meira slasaður, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var um áreksturinn um klukkan 19:30 í kvöld og voru dælubíll og þrír sjúkrabílar sendir á vettvang. Vesturlandsvegi var í kjölfarið lokað í suðurátt og stendur lokunin enn. Opið er fyrir umferð um veginn til norðurs.

Báðir bílar eru óökufærir og búið er að draga þá af vettvangi. Ekki er vitað hvort fleiri voru í bílunum en hinir þrír slösuðu. Lögregla rannsakar nú slysstað, að sögn varðstjóra.

Á sama tíma barst tilkynning um bráðaveikindi við Bauhaus í Mosfellsbæ og sendi slökkvilið einn sjúkrabíl á vettvang vegna þess.

Uppfært klukkan 22:17: 

Opnað var aftur fyrir umferð um Vesturlandsveg á níunda tímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×