Erlent

Kim Jong-un sendi Trump enn eitt bréfið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kim Jong-Un og Donald Trump funduðu í Singapúr í júní. Fundur þeirra virðist litlu hafa skilað.
Kim Jong-Un og Donald Trump funduðu í Singapúr í júní. Fundur þeirra virðist litlu hafa skilað. Vísir/AP
Viðræður eru hafnar á milli embættismanna Norður-Kóreu og Bandaríkjanna um að forsetar ríkjanna hittist á fundi á nýjan leik. Kim Jong-un, leiðtogi N-Kóreu, sendi kollega sínum, Donald Trump, forseta Bandaríkjanna bréf á dögunum. Washington Post greinir frá.

Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, greindi frá þessu í dag og sagði hún að í bréfinu hafi mátt finna hlýjar og jákvæðar kveðjur til Trump ásamt ósk um að leiðtogarnir myndu hittast á nýjan leik. 

Trump og Kim hittust á sögulegum fundi í Singapore í júní síðastliðnum þar sem umræðuefnið var meðal annars afkjarnorkuvopnavæðing Kóreu-skagans. Lítið hefur þó þokast í þeim efnum frá því að fundurinn var haldinn og hættu Bandaríkin meðal annars skyndilega við heimsókn utanríkisráðherrans Mike Pompeo til N-Kóreu fyrir skömmu, sökum lítils árangurs í viðræðum við Kim og embættismann hans.

Sanders vildi ekki veita blaðamönnum afrit af bréfi Kims til Trump. Þetta er þó í minnsta kosti í þriðja skipti sem Kim sendir Trump bréf, það fyrsta barst Trump í aðdraganda fundarins í júní og annað bréf barst í síðasta mánuði.

Talið er mögulegt að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður í New York síðar í mánuðinum geti orðið vettvangur funda Kim og Trump, þó sérfræðingar ytra segja að ekkert bendi til þess að Kim muni mæta á allsherjarþingið.


Tengdar fréttir

Segir að Kim hafi grátbeðið um fundinn

Rudy Guiliani, einn af lögfræðingum Donald Trump,forseta Bandaríkjanna, segir að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu hafi grátbeðið Trump að setja áætlaðan fund þeirra aftur á dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×