Erlent

Neyðarástand og rýmingar vegna Florence sem nálgast ört

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Fellibylurinn Flórens á mynd sem var tekin frá Alþjóðlegu geimstöðinni í dag.
Fellibylurinn Flórens á mynd sem var tekin frá Alþjóðlegu geimstöðinni í dag. Vísir/Getty
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og nokkur svæði hafa verið rýmd á austurströnd Bandaríkjanna vegna fellibylsins Florence sem mun ganga á land í lok vikunnar.

Ríkisstjóri Suður-Karólínu hefur fyrirskipað að öll strandlengja ríkisins verði rýmd og þá hefur neyðarástandi verið lýst yfir í mörgum ríkjum, þar á meðal Norður-Karólínu, Virginíu- og Marylandríki. Fellibylurinn Florence, sem skilgreindur var sem annars stigs fellibylur í morgun, stækkar nú ört og var orðinn að fjórða stigs fellibyl í kvöld. Vindhraði í fellibylnum hefur náð allt að 54 metrum á sekúndu.

Spár gera ráð fyrir að Florence gangi á land við strendur Karólínuríkjanna á fimmtudag og muni þá ná fimmta stigi. Mikil flóðahætta er talin standa af fellibylnum.

Þá er talið að Florence verði einn umfangsmesti fellibylur sem gengur yfir svæðið í áratugi. Síðast gekk fjórða stigs fellibylur á land við strendur Karólínuríkjanna árið 1989. Sá olli milljarðatjóni og 49 dauðsföllum.

Viðbragðsaðilar á svæðinu undirbúa sig flestir undir hið versta. „Einhverjir munu verða fyrir skelfilegu tjóni ef spár um þennan fellibyl ganga eftir,“ var haft eftir veðurfræðingnum Dan Miller í dag. Þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti aflýst kosningafundi sem halda átti í Mississippi á föstudag vegna fellibylsins. Trump tísti um óveðrið í kvöld og biðlaði til fólks á svæðinu að koma sér í öruggt skjól.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×