Fótbolti

Alderweireld ræddi um tap Íslands í Sviss og nýja Þjóðadeildarlagið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það verður mikið um dýrðir í Laugardalnum í kvöld er eitt besta landslið heims, Belgía, mætir íslenska landsliðinu í Þjóðadeildinni.

Flautað verður til leiks klukkan 18.45 en í gær sat belgíski varnarmaðurinn öflugi Toby Alderweireld fyrir svörum á blaðamannafundi.

„Þetta kom okkur dálítið á óvart (úrslit Íslands gegn Sviss). Það er erfitt að spila gegn Íslandi. Ég held að þeir hafi bara ekki verið á deginum sínum,” sagði varnarmaðurinn öflugi í Laugardalnum í gær.

„Þetta verður allt öðruvísi leikur á morgun. Það er erfitt að spila gegn þeim á þeirra eigin heimavelli,” en Ísland hefur ekki tapað keppnisleik á Laugardalsvelli í rúm fimm ár.

Belgía spilaði afar vel á HM í sumar. Liðið endaði í þriðja sætinu eftir að hafa dottið í undanúrslitunum gegn heimsmeisturum Frakka. Alderweireld segir þó Belgana ekki vera sadda.

„Allir í liðinu eru hungraðir í eitthvað meira. Við viljum bæta okkur sem leikmenn og sem lið. Við viljum vera kynslóð sem náði í mörg góð úrslit og þetta er annað tækifæri til að sýna hversu góð þessi kynslóð er.”

Allan blaðamannafundinn með Toby má sjá í spilaranum hér að ofan en undir lokin er hann meðal annars spurður út í Þjóðadeildarlagið í samanburði við Meistaradeildarlagið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×