Innlent

Fleiri karlar án fram­halds­skóla­menntunar hér en víða á Vestur­löndum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
fréttablaðið/ernir
Hlutfall karla án framhaldskólamenntunar á Íslandi er með því hæsta sem þekkist á Vesturlöndunum. Munur á hlutfalli kvenna og karla í menntakerfinu er óvíða jafnmikill eins og á Íslandi.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu OECD um menntatölfræði ársins 2018 sem birt var á vef Menntamálaráðuneytisins í morgun. Samkvæmt skýrslunni er staða karla einungis verri á Ítalíu, Spáni og Portúgal af löndum Evrópu sem eiga aðild að OECD.

Á Íslandi hafa 24 prósent karla á aldrinum 25 til 34 ára ekki lokið námi eftir grunnskóla en hlutfallið er 15 prósent fyrir konur. Munur á milli kynjanna er óvíða jafn mikill og á Íslandi eða 9 prósentustig. Hlutfall karla án framhaldsskólamenntunar hefur þó farið minnkandi en árið 2007 var hlutfall karla án framhaldsskólamenntunar í aldursflokknum 25 til 34 ára 31 prósent og hefur lækkað um 7 prósent á einum áratug.

Fjölmargar aðrar ályktanir eru dregnar í skýrsluni þar kemur meðal annars fram að félagslegur bakgrunnur fólks hefur meiri áhrif á menntun þeirra eftir því sem líður á skólagönguna og starfsævina. Borgarar af erlendum uppruna eru þá líklegri til að hverfa frá námi og eiga erfiðara uppdráttar í atvinnulífinu. Þá hefur búseta meiri áhrif eftir því sem ofar dregur í skólastiganum og verulegur og viðvarandi kynjahalli er í kennarastétt. Einnig kemur þar fram að þrátt fyrir aukningu í opinberum útgjöldum þá leggst talsverður hluti útgjalda á leikskólastigi og háskólastigi á heimilin í landinu.

Samantekt úr skýrslunni um íslensk menntamál má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×