Fótbolti

Markvörður Slóvaka skoraði sigurmarkið í uppbótartíma og gerði út um vonir Íslands

Anton Ingi Leifsson skrifar
Albert fagnar fyrra marki sínu í dag.
Albert fagnar fyrra marki sínu í dag. vísir/vilhelm
Draumur íslenska U21-árs landsliðsins um að komast í umspilið um laust sæti á EM U21 2019 er úr þeirra höndum eftir að liðið tapaði 3-2 gegn Slóvakíu í Vesturbænum.

Leikið var á Alvogen-vellinum í Vesturbæ Reykjavíkur í kvöld og voru Slóvakarnir sterkari framan af. Þeir fengu meðal annars vítaspyrnu sem Aron Snær Friðriksson varði.

Það voru hins vegar Íslendingar sem komust yfir. Albert Guðmundsson lék þá laglega á varnarmann og hamraði boltanum í nærhornið. Óverjandi fyrir markvörð Slóvaka og strákarnir yfir í hálfleik.

Ungu strákarnir okkar þurftu á sigri að halda til þess að halda baráttunni um umpilssæti vel á lífi en það dróst úr þeim vonum er Laszlo Benes skoraði með góðu skoti á 58. mínútu.

Fjörinu var heldur betur ekki lokið.     Slóvakarnir virtust vera að tryggja sér sigurinn með marki Tomás Vestenický í uppbótartím en svo var ekki.

Ísland fékk vítaspyrnu skömmu síðar eftir að Tryggvi Hrafn Haraldsson var tekinn niður. Albert fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi og flestir héldu að lokatölurnar urðu 2-2.

Slóvakarnir voru hins vegar ekki hættir. Þeir geystust upp og Aron Snær Friðriksson varði afar vel í horn. Upp úr horninu skoraði markvörður þeirra, Marek Rodák, sigurmark þeirra eftir að boltinn féll niður til hans í teignum.

Lokatölur ótrúlegur 3-2 sigur Slóvaka sem eru því enn á lífi í baráttunni um umspil á meðan íslenska liðið hefur ekki að neinu að keppa í síðustu tveimur leikjunum; gegn Spáni og Norður-Írlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×