Erlent

Hundur sem ekki reyndist dauður kom í veg fyrir 50 ára afplánun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Joshua Horner sést hér fyrir miðju ásamt eiginkonu sinni, Kelli Horner, og Steve Wax, lögfræðingi OIP-samtakanna.
Joshua Horner sést hér fyrir miðju ásamt eiginkonu sinni, Kelli Horner, og Steve Wax, lögfræðingi OIP-samtakanna. Mynd/Oregon Innocence Project/Jenny Coleman
Joshua Horner, karlmaður frá Oregonríki í Bandaríkjunum, er nú frjáls ferða sinna og þarf ekki að afplána 50 ára fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn barni. Eitt af sönnunargögnum málsins var hundur, sem Horner átti að hafa drepið, en hundurinn fannst nýlega á lífi.

Í frétt BBC um málið segir að stefnandi hafi haldið því fram að Horner hefði skotið hundinn til bana fyrir framan hana. Með hundsdrápinu hafi hann ætlað að koma í veg fyrir að stúlkan segði frá meintum kynferðisbrotum. Horner hlaut 50 ára dóm í fyrra fyrir brotin gegn stúlkunni en kviðdómur var ekki sammála um sekt hans á sínum tíma.

Samtökin Oregon Innocence Project, sem hafa það að markmiði að forða saklausum frá afplánun, hófu rannsókn á máli Horners og gerðu formlega athugasemd við dóminn yfir honum í apríl síðastliðnum.

Rannsókn samtakanna leiddi í ljós að umræddur hundur, labradortíkin Lucy, var alls ekki skotin til bana heldur naut hún lífsins - og nýtur enn - hjá nýjum eigendum. Horner hafði alltaf haldið því fram að Lucy væri á lífi.

Þá hefur verið reynt að ná tali af meintum þolanda Horners en hún hefur ekki látið sjá sig á fundum sem hún hefur verið boðuð á. Í frétt AP-fréttaveitunnar um málið segir einnig að hún hafi hlaupið á brott þegar starfsfólk saksóknara hafði upp á henni og reyndi að nálgast hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×