Ná Haukar loksins mála bæinn rauðan á eigin heimavelli?

Fyrstu umferð Olís-deildar karla í handbolta lýkur í kvöld með tveimur leikjum þegar að Selfyssingar heimsækja ÍR í Austurbergið og erkifjendurnir Haukar og FH mætast í Schenker-höllinni að Ásvöllum.
Já, Hafnafjarðarslagur í fyrstu umferð til að bæta ofan á Reykjavíkurslag Fram og Vals sem endaði með 25-25 jafntefli og auðvitað Akureyrarslag KA og Akureyrar þar sem að þeir gulu unnu dramatískan eins marks sigur.
Fáir leikir bjóða upp á jafnmikla spennu og tilfinningar í íslenskum handbolta eins og leikir Hauka og FH en síðast þegar að liðin mættust rétt fyrir jól í fyrra vann FH á heimavelli sínum með flautumarki Óðins Þórs Ríkharðssonar.
FH vann báða leikina á móti Haukum í fyrra og er því svo sannarlega með montréttinn í bænum. FH vann einnig tvo af þremur deildarleikjum liðanna á þar síðustu leiktíð en liðið er með fínt tak á Haukum á Ásvöllum.
FH-ingar hafa ekki tapað deildarleik í Schenker-höllinni síðan 8. desember 2015 en eru síðan þá búnir að gera eitt jafntefli og vinna þrjá leiki í röð í greni erkifjenda sinna. Ekki amalegt og vafalítið eitthvað sem að Haukarnir vilja snúa við.
Ásgeir Örn Hallgrímsson er mættur til leiks hjá Haukum og hefur endurkomu sína í Olís-deildinni með Hafnafjarðarslag en Haukarnir litu best allra út á undirbúningstímabilinu. Þeir unnu bæði Ragnarsmótið og Hafnafjarðarmótið með fullu húsi stiga.
Leikur Hauka og FH verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD í kvöld en upphitun Seinni bylgjunnar frá Ásvöllum hefst klukkan 19.15. Leikurinn verður svo gerður upp í setti frá Ásvöllum að honum loknum og einnig farið yfir svipmyndir úr leik ÍR og Selfoss.