Viðskipti innlent

Hagar hækka eftir samþykktina

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Finnur Árnason, forstjóri Haga
Finnur Árnason, forstjóri Haga
Frá því að markaðir opnuðu í morgun hafa bréf í Högum hækkað um rúm 4,5 prósent. Viðskipti með bréfin hafa alls numið um 180 milljónum það sem af er degi. Ætla má að rekja megi hækkunina beint til sáttar sem Hagar og Samkeppniseftirlitið undirrituðu í gær um skilyrði fyrir kaupum Haga á Olíuverslun Íslands og fasteignafélaginu DGV. Tilkynnt var um undirritunina eftir að markaðir lokuðu í gær.

Kaupsamningur vegna kaupa Haga, sem á og rekur meðal annars verslanir Hagkaupa og Bónuss, á öllu hlutafé Olís og fasteignafélagsins DGV var undirritaður í apríl á síðasta ári.

Samkeppniseftirlitið tók kaupin til skoðunar en á ýmsu gekk við skoðun eftirlitsins á kaupunum. Eftirlitið samþykkti ekki kaupin án skilyrða og gengið var til sáttaviðræðna.

Trú fjárfesta á að kaupin gengu eftir jókst þegar Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna Festi og N1 í lok júlí. Þegar samþykktin lá fyrir hækkuðu hlutabréf í Högum um næstum 7 prósent.

Þá hefur hlutabréfaverð í Icelandair einnig hækkað það sem af er degi um rúm 3,6 prósent. Bréfin í félaginu hafa hækkað síðustu daga vegna óvissunnar sem ríkir um framtíð WOW Air.


Tengdar fréttir

Hagar og Olís sameinast í eitt félag

Hagar og Samkeppniseftirlitið (SKE) undirrituðu í gær sátt um skilyrði fyrir kaupum Haga á Olíuverslun Íslands og fasteignafélaginu DGV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×