Innlent

Dómsmálaráðherra gaf skýrslu í Landsréttarmáli

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Vísir

Sigríður Á. Andersen og þrír núverandi og fyrrverandi þingmenn gáfu skýrslu í Héraðsdómi í Reykjavík í gær þegar kröfur tveggja umsækjenda um dómaraembætti við Landsrétt um skaðabótaskyldu á hendur ríkinu voru teknar fyrir þar.

Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, og Jón Höskuldsson, héraðsdómari, krefjast þess að íslenska ríkið viðurkenni skaðabótaskyldu vegna skipunar dómsmálaráðherra á dómurum við Landsrétt. Þeir voru á meðal fjögurra umsækjenda sem hæfnisnefnd lagði til að yrðu skipaðir en ráðherrann skipti út.

Mál Eiríks og Jóns voru flutt samhliða fyrir héraðsdómi í gær. Auk Sigríðar dómsmálaráðherra gáfu Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, skýrslu fyrir dómnum.

Búist er við því að niðurstaða liggi fyrir í málinu innan fjögurra vikna.

Ríkið var sýknað af kröfu tveggja umsækjenda í desember

Upphaflega sóttu 33 um embætti dómara við nýja dómstigið Landsrétt sem tók til starfa í byrjun þessa árs. Hæfisnefnd mat umsækjendurna og taldi fimmtán hæfasta til að verða fyrir valinu. Dómsmálaráðherra gerði hins vegar fjórar breytingar á þeim lista þegar hún lagði tillögu sína um dómaraefni fyrir Alþingi.

Auk Eiríks og Jóns skipti dómsmálaráðherra þeim Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, hæstaréttarlögmönnum, út af lista hæfisnefndarinnar. Af þeim fjórum var Eiríkur hæstur, í sjöunda sæti.

Ástráður og Jóhannes Rúnar stefndu ríkinu í fyrra. Lauk málinu í Hæstarétti í desember með þeirri niðurstöðu að ríkið var sýknað af kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Þeim voru hins vegar dæmdar 700 þúsund krónur í bætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar.

Hæstiréttur vísaði meðal annars til þess, þegar ríkið var sýknað af kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, að Ástráður og Jóhannes hefðu ekki sýnt fram á fjárhagslegt tjón. Þeir kusu að framvísa ekki skattframtölum kröfu sinni til stuðnings.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar ákvað Jón Höskuldsson að stefna ríkinu þar sem hann teldi „ótvírætt að hann ætti kröfu á hendur íslenska ríkinu vegna þessara brota og valdníðslu“.

Jón sagðist í stefnu sinni telja tjónið nema mismunum launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt annars vegar og héraðsdómara hins vegar. Hann krefst þess að fá muninn greiddan út starfsævi sína, eða í níu ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×