Erlent

Ísland meðal ríkja sem stöðvuðu stofnun griðarsvæðis hvala í S-Atlantshafi

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Þegar eru til griðarsvæði hvala í Indlandshafi og við Suðurskautslandið.
Þegar eru til griðarsvæði hvala í Indlandshafi og við Suðurskautslandið. Vísir/AP
Ísland er á meðal 25 ríkja sem komu í veg fyrir samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um stofnun griðarsvæðis fyrir hvali í Suður-Atlantshafi en fundur ráðsins stendur yfir í Brasilíu.

Edson Duarte, Umhverfisráðherra Brasilíu, hefur lýst yfir vonbrigðum með niðurstöðuna en Brasilía lagði tillöguna fram. „Við munum reyna að vinna á öðrum vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins til að tryggja að griðarsvæðið verði endanlega að veruleika,“ segir Duarte í samtali við breska ríkisútvarpið.

39 ríki studdu tillöguna en 25 kusu gegn. Tillagan féll þar sem tvo þriðju hluta þarf til að samþykkja tillögur í alþjóðahvalveiðiráðinu. Ísland gegn tillögunni ásamt ríkjum á borð við Japan, Rússland og Noreg.

Þetta er í annað sinn sem tillaga af þessum toga er felld í Alþjóðahvalveiðiráðinu en fyrri tillagan var felld á fundi ráðsins árið 2012. Þegar eru til tvö griðarsvæði í heiminum sem eru samþykkt af alþjóðahvalveiðiráðinu, þau eru í Indlandshafi og í kring um Suðurskautslandið.

Fulltrúar Japans hafa þá lagt til að banni við hvalveiðum í atvinnuskyni sem komið var á árið 1986 verði aflétt. Sú tillaga verður rædd síðar í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×