Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Selfoss 24 - 30 | Öruggur sigur Selfyssinga

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Elvar Örn Jónsson og félagar unnu öruggan sigur í kvöld
Elvar Örn Jónsson og félagar unnu öruggan sigur í kvöld Vísir/Andri Marinó
Selfoss vann öruggan sex marka sigur á ÍR í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handbolta. Með sigrinum fer Selfoss á topp deildarinnar á markatölu.

Gestirnir frá Selfossi áttu fyrsta markið en það voru heimamenn sem byrjuðu betur. Selfyssingar áttu hins vegar fimm marka sveiflu um miðbik fyrri hálfleiks og komust í forystu sem þér létu ekki eftir.

Leikurinn var mjög harður og fengu bæði lið fimm tveggja mínútna brottvísanir í fyrri hálfleik. Bekkir beggja liða fengu líka að líta gula spjaldið í fyrri hálfleiknum, nóg að gera hjá dómarapari dagsins.

Það hægðist aðeins á brottvísununum í seinni hálfleik, hins vegar ekki fyrr en eftir að Haukur Þrastarson fékk rautt spjald í upphafi seinni hálfleiks. Hann var þá kominn með tvær brottvísanir. Þrátt fyrir að hægst hafi á brottvísununum var þó hart barist í leiknum.

Selfyssingar voru með í kringum fjögurra marka forystu mest allan seinni hálfleikinn en heimamenn gáfust þó aldrei upp og reyndu hvað þeir gátu að minnka muninn.

Af hverju vann Selfoss?

Selfyssingar sýndu það í dag að þeir eru með eitt besta liðið á landinu og tímabilið í fyrra var ekkert öskubuskutímabil. Þeirra skærasta stjarna, Haukur Þrastarson, gerði lítið í leiknum annað en að láta reka sig út af og Teitur Örn Einarsson er farinn en það skipti ekki máli.

ÍR-ingar börðust vel í leiknum og gáfu allt í hann en þeir gerðu of mörg mistök sem má ekki gera á móti svona góðu liði.

Hverjir stóðu upp úr?

Stephen Nielsen í marki heimamanna var algjörlega frábær í fyrri hálfeik. Hann fór aðeins að leka mörkunum undir lokin þegar það var orðið ljóst að stefndi í sunnlenskan sigur en átti mjög góðan leik.

Einar Sverrisson var markahæstur í liði Selfoss og var stanslaust ógn af honum.

Hvað gekk illa?

Í fyrri hálfleik áttu leikmenn beggja liða í mestu vandræðum með að hanga inni á vellinum. Einstaka brot voru kannski á mörkunum með að verðskulda tvær mínútur en leikmenn voru fastir fyrir og þeir þurftu að gjalda fyrir það.

Hvað gerist næst?

Næsta umferð hefst um helgina en þessi lið spila þó ekki fyrr en á mánudag. ÍR fer í Mosfellsbæinn og mætir Aftureldingu og Selfyssingar halda norður í land og mæta Akureyri handboltafélagi.

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfossvísir
Patrekur: Unnum sanngjarnt á móti góðu liði

„Ánægður með að hafa unnið fyrsta leik. Það er oft erfitt að koma inn í fyrsta leik, það er stress í mönnum og það sást á okkur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir leikinn.

„Við vorum aðeins ragir en síðan komumst við vel inn í þetta og unnum fannst mér sanngjarnt á móti góðu liði ÍR.“

Í seinni hálfleiknum var í raun aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda þar sem ÍR-ingar komust ekki nær Selfossi en í tveggja marka mun.

„Það var ekki fyrr en kannski alveg í restina, þá var þetta komið. ÍR er með hörku lið og við þurftum að hafa fyrir þessu. Þetta var barátta og það er oft þannig í þessum fyrstu leikjum. Maður vissi það svo sem, þetta eru hörku lið og bæði vildu stigin.“

„Að koma hingað á þennan sterka heimavöll ÍR-inga, flott stemming í húsinu og þeir eru með hörku lið, búnir að styrkja sig vel og voru með góða leikmenn fyrir, svo ég er hrikalega ánægður með þessi tvö stig.“

Báðir þjálfarar mótmæltu sumum dómum í hita leiksins, eins og gengur og gerist. Patrekur vildi þó ekki setja neitt út á dómgæsluna í leikslok.

„Nei, ég þarf bara að kíkja á það. Best að skoða þetta bara og þá sér maður það hvort þetta hafi verið rétt eða rangt. Það er örugglega eitthvað sem maður finnur sem var skrítið, hjá báðum liðum,“ sagði Patrekur Jóhannesson.

Bjarni Fritzson er þjálfari ÍR.vísir
Bjarni: Dýr mistök gegn besta liði deildarinnar

„Í heildina erum við bara að gera of mikið af mistökum,“ var svar Bjarna Fritzsonar, þjálfara ÍR, við því hvað hefði farið úrskeiðs í kvöld. „Svona mistökum sem við viljum helst ekki sjá. Einstaklingsmistök og við erum að einhverju leiti óskynsamir og öðru leiti klaufar.“

„Á móti svona sterku liði, og fyrir mína parta er Selfoss besta liðið í deildinni, þá er það mjög dýrt.“

„Leikurinn var alveg ágætur á mörgum köflum hjá okkur og þetta er hörku leikur þar til að Beggi (Bergvin Þór Gíslason) fer út af í tvær mínútur í staðinn fyrir að fara upp í hraðaupphlaup og minnka niður í tvö. Þarna eru bara um sex mínútur eftir eða eitthvað.“

„Alls ekki slakur leikur af okkar hálfu en mörg mistök sem eru óásættanleg.“

Það að leikmenn séu að gera klaufaleg og óskynsöm mistök er þó líklega jákvætt að því leiti að það ætti að vera nokkuð einfalt að vinna í þeim og laga?

„Já, ekki spurning. Við erum búnir að vera að púsla liðinu saman síðustu daga, mikið um brotfall, meiðsli og veikindi. Við drógum Þránd (Gíslason Roth) á flot bara í fyrradag. Að hluta til er þetta það að okkur vantar aðeins meiri tengsl og rúteringu í það sem við erum að spila, en að öðru leiti er það agaleysi.“

„Það er eðlilega það sem maður er að vinna í gegnum tímabilið að ná stöðugleika og fínpussa planið.“

Bjarni vildi ekki frekar en kollegi sinn láta nein stór orð falla um dómarapar leiksins.

„Ég ætla ekkert að varpa neinum bombum neitt. Þetta er okkar besta par. Ég var ekkert fullkomlega sáttur með það sem þeir gerðu en augljóslega voru þeir að gera sitt besta. Ég vil einblína bara á það sem ég get lagað.“

Bjarni á afmæli í dag, fagnar 38 ára afmæli sínu. Hann var nokkuð ánægður með það sem strákarnir hans gáfu honum á afmælisdaginn þrátt fyrir að hafa ekki fengið tvö stig í pakkanum.

„Þeir gáfu allt í þetta. Þegar maður eldist verða afmælin ekki jafn merkileg og áður. Frábær mæting í húsið, góð stemming, strákarnir litu ágætlega út finnst mér. Mæta ógnarsterku liði og vorum í góðu tækifæri til þess að sigra leikinn. Þetta er bara eitthvað sem við byggjum á,“ sagði Bjarni Fritzson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira