Handbolti

Guðjón og Alexander höfðu betur gegn Aroni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón fagnar marki í leik með Löwen.
Guðjón fagnar marki í leik með Löwen. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen hafði betur gegn Barcelona í Íslendingaslag er liðin mættust í fyrstu umferðinni í A-riðli í Meistaradeild Evrópu. Lokatölur 35-34.

Þjóðverjarnir náðu forystunni um miðjan hálfleikinn og leiddu í hálfleik með þremur mörkum, 16-13, eftir að hafa náð mest sex marka forystu.

Í síðari hálfleik slökuðu þeir þýsku aðeins á. Þeir náðu mest sjö marka forystu í síðari hálfleik en Börsungar náðu að laga stöðuna en ekki að jafna. Lokatölur urðu 35-34.

Guðjón Valur Sigurðsson gerði sex mörk úr sex skotum en Alexander Petersson skoraði eitt mark. Hjá Barcelona var Aron Pálmarsson með tvö mörk.

Í A-riðlinum eru einnig Kristianstad, Meskhov Brest, Montpellier, Vardar, Veszprem og Kielce svo riðillinn er nokkuð sterkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×