Fótbolti

Sara Björk: Ég er pínulítið svekkt

Jón Ágúst Eyjólfsson skrifar
Sara Björk var svekkt.
Sara Björk var svekkt. vísir/getty
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði og leikmaður Wolfsburg, var að eigin sögn pínulítið svekkt með úrslitin á Þórsvellinum í dag þegar Wolfsburg vann 1-0 sigur á Þór/KA í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Við hefðum átt að setja fleiri mörk á þær og koma okkur í aðeins betri stöðu en við förum með eitt núll og gerum vonandi enn betur heima,“ sagði Sara.

 

Í upphafi leiks var jafnvel útlit fyrir markasúpu af hálfu gestanna.

„Maður verður að byrja á því að skora eitt og reyna að halda áfram. Við vissum að Þór/Ka myndi liggja djúpt og það er alltaf erfitt að mæta svoleiðis liði.”

„Nokkur lið í Bundesligunni spila svona djúpt og það þarf að sýna mikla þolinmæði gegn svona liðum. Þær náðu að loka þeim svæðum sem við vildum komast í og gerðu það mjög vel.”


Sara sat ansi aftarlega á vellinum í dag og tók ekki mikin þátt í sóknarleik gestanna. Hún sagði að það kæmi fyrir að hún spilaði aftar en hún væri vön.

„Það var ansi þröngt inn á miðjunni og þess vegna reyndum að spila þar sem að ég datt aðeins niður og reyndum að fá boltann út á kantana og opna þær þannig.”

 

Sara sagði það frábæra tilfinningu að fá að spila á móti íslensku liði.

„Ég hef alltaf vonast til þess að fá íslenskt lið í meistaradeildinni. Ég var alltaf að vonast eftir því þegar ég var í Rosengaard og um leið og ég fór fengu þær Breiðablik þannig að ég var mjög sátt með dráttinn,“ sagði Sara að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×