Innlent

Logi: Stór hópur upp­lifir góð­ærið að­eins í gegnum meðal­töl og glans­tíma­rit

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Logi Einarsson er formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson er formaður Samfylkingarinnar. Fréttablaðið/Eyþór
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar gagnrýndi ríkisstjórnina í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Sagði hann að stjórnvöld þurfi að koma með afgerandi hætti að lausn kjarasamninga sem lausir verða á næstunni.

Í máli Loga kom fram að ýmislegt bendi til þess að efnahagslífið væri aftur á leið niður eftir að hafa verið á „tindi hagsveiflu“ í langan tíma. Komandi mánuðir væru afgerandi þar sem stjórnvöld undanfarinna ára hafi ekki nýtt svigrúm til að jafna kjörin nægilega og auka félagslegan stöðugleika.

„Það þarf ekki sterka raunveruleikatengingu til að sjá að góðærið hefur ekki náð til allra. Stór hópur fólks upplifir það í besta falli gegnum meðaltöl, glanstímarit eða fréttir af launahækkunum tekjuhárra, m.a. okkar,“ sagði Logi sem gagnrýndi orð stjórnmálamanna um að stjórnvöld ættu ekki að blanda sér um of í kjarasamninga.

„Stjórn ríkis er hins vegar ekki eins og hver annar sjoppurekstur og hlutverk stjórnvalda er að skapa öllum landsmönnum viðunandi aðstæður og öryggi,“ sagði Logi og því þyrftu stjórnvöld að koma með afgerandi hætti að lausn samninga sem framundan eru.

Líkti ríkisstjórninni við matardisk í fermingarveislu

Þá gagnrýndi Logi einnig þá hugmynd að gagnlegt væri að ríkisstjórnin væri mynduð á breiðum grundvelli flokka sem í grundvallaratriðum ósammmála um leiðir og markmið og vísaði hann þar til núverandi ríkisstjórnar sem mynduð er af Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og VG, sem nær alla leið frá hægri til vinstri.

Sagði Logi að slíkt kallaði á of mikla eftirgjöf frá grundvallargildum og líkti hann stjórnarsamstarfinu við matardisk í fermingarveislu.

„Það er nefnilega einungis gleðin yfir áfanganum - samvistir fjölskyldunnar, sem skapar ljúfar minningar um undarlega samsetningu á matardiski í fermingarveislu. Roastbeef, graflax, lamb, rauðkál, rækjuhlaup með brúnni sósu, saman á disk, er ekki í áhugavert í sjálfu sér,“ sagði Logi sem taldi að stjórnmál ættu ekki að vera huggulegur selskapsklúbbur.

„Við getum t.d. stutt við mótun frekari loftlagsaðgerða en ekki sætt okkur við of lítið fé til sjúkrahúsþjónustu, metnaðarleysi í menntamálum eða ömulegt úrræðaleysi í húsnæðismálum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×