Innlent

Inga Sæ­land: Hefði aldrei montað mig af per­sónu­af­sláttar­hækkuninni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Inga Sæland, alþingismaður og formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, alþingismaður og formaður Flokks fólksins. Vísir/Anton Brink
Fátækt á Íslandi var í forgrunni í ræðu Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld.

Inga sagðist hafa gengið inn í síðasta sumar með trega, vitandi það að hún hafi getað ferðast eins og hún vildi – þar sem hún hafði efni á því. Þá gagnrýndi hún þá sem á undan höfðu komið upp í pontu fyrir að hafa ekki minnst á fátækt á Íslandi í ræðum sínum.

„Er þá ekki kominn tími til að opna augun? Eigum við ekki að líta inn á við og spyrja, hverjar eru frumþarfir mannsins? Hverjar eru frumþarfir okkar allra?“ spurði Inga.

Þá kom hún inn á málefni öryrkja á Íslandi.

„Varð ég fyrir slysi? Hvers vegna er ég veikur? Af hverju er ég öryrki? Hvar er hjálpina að finna? Við verðum að átta okkur á því, virðulegi forseti, að það biður enginn um að vera öryrki. Enginn.“

Nutu ekki sömu forréttinda og „ríkisbubbabörnin“

Þá sagði Inga að þeir sem byggju við fátækt væru ekki að biðja um munað, heldur sanngirni, réttlæti og jöfnuð.

„Enginn þeirra getur farið í leikhús, enginn þeirra getur farið út að borða. Ég tala af eigin reynslu. Kannski einu sinni í mánuði, þá er hægt að hafa pítsu. Mín börn nutu ekki sömu forréttinda og ríkisbubbabörnin í kring.“

Þá gaf Inga lítið fyrir að verið væri að beita skattakerfinu til að koma á jöfnuði í samfélaginu. Þá spurði hún hvernig það mætti vera að fátækt meðal barna á Íslandi hefði aukist í góðæri undanfarinna missera. Hún beindi að síðustu spjótum sínum aftur að ríkisstjórninni og nýjum fjárlögum.

„Ég hefði til dæmis persónulega og prívat aldrei staðið í pontu í kvöld og montað mig af fjögurra prósenta hækkun á persónuafslætti. Staðreyndin er sú að við erum að tala um eitt prósent. Eitt prósent. Þrjú prósent af þessari hækkun koma eingöngu vegna lögbundinnar vísitöluhækkunar, þetta eina prósent gefur 535 krónur. En ég veit ekki í hversu margar sneiðar við þyrftum að skera pítsuna til að fá sneið fyrir 535 kall,“ sagði Inga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×