Fótbolti

Foreldrar Rúriks tóku lán til að hjálpa honum í atvinnumennskunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúrik Gíslason fór frá HK árið 2005 þá 18 ára gamall.
Rúrik Gíslason fór frá HK árið 2005 þá 18 ára gamall. vísir/getty
Rúrik Gíslason, landsliðsmaður í fótbolta, fékk heldur betur góða aðstoð frá foreldrum sínum þegar að atvinnumennskan hófst hjá honum árið 2005.

Rúrik fór þá 18 ára til Charlton á Englandi frá HK þar sem að hann er uppalinn en samningurinn var ekki stór. Til þess að hann gæti lifað almennilega í Lundúnum tóku foreldrar hans lán og létu landsliðsmanninn fá peninginn til að aðstoða hann.

„Ég held að ég hafi aldrei sagt frá þessu áður en mamma og pabbi tóku lán til að koma mér út svo að ég gæti átt eitthvað til að lifa sómasamlegu lífi þarna úti. Ég fékk ekki mikinn pening á þessum samningi og þau aðstoðuðu mig,“ segir Rúrik í viðtali við tímaritið Glamour.

„Ég hef alltaf átt þeirra stuðning 100 prósent í öllu sem ég hef tekið mér fyrir hendur og þá sérstaklega í fótboltanum. Það er gríðarlega mikilvægt og ein helsta ástæða þess að maður er búinn að endast í þessu svona lengi.“

Rúrik, sem varð þrítugur í febrúar, hefur spilað með Viborg, OB og FCK í Kaupmannahöfn og nú síðast Nürnberg og Sandhausen í Þýskalandi. Hann er einn af ellefu íslenskum leikmönnum sem hafa spilað í Meistaradeildinni.

Á löngum ferli hefur hann alltaf haft stuðning foreldra sinna. Móðir Rúriks er þó öllu jákvæðari en faðir hans.

„Mamma hefur alltaf hvatt mig í öllu og hrósar mér eftir hvern einasta leik, sama hvað ég hef gert, á meðan pabbi hefur alltaf getað fundið eitthvað sem ég hefði getað gert betur,“ segir Rúrik Gíslason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×