Erlent

Sex dánir eftir skotárásir í Kaliforníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi einnar árásarinnar.
Frá vettvangi einnar árásarinnar. Vísir/AP
Minnst sex eru dánir eftir nokkrar tengdar skotárásir í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Lögreglan segir árásarmanninn hafa farið með eiginkonu sinni að fyrirtæki í bænum Bakersfield þar sem hann skaut tvo menn og eiginkonu sína til bana. Því næst keyrði hann að heimili í bænum þar sem hann myrti mann og konu. Hann rændi svo bíl sem í voru kona og barn og ók á brott eftir að þeim tókst að flýja.

Þegar lögregluþjónar höfðu afskipti af manninum þar sem hann var í áðurnefndum bíl beindi hann byssu sinni að sjálfum sér. Ekki liggur fyrir hvert tilefni árásanna var en lögreglan hefur það til rannsóknar.

Talsmaður lögreglunnar í Kern-sýslu segir að meðal annars sé unnið að því að kanna hvort einhver tengsl séu á milli aðila sem að málinu koma. Augljóst þyki að morðin hafi ekki verið handhófskennd.

Hann lýsti atvikinu sem svokallaðri „mass-shooting“ eins og það kallast í Bandaríkjunum og sagði þetta vera nýjan raunveruleika Bandaríkjamanna. Skotárásir sem þessar virðist sífellt verða algengari. Um 30 vitni urðu að skotárásunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×