Erlent

Mannskæð Flórens gengur á land á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Áhrifa Flórens er þegar farið að gæta á austurströnd Bandaríkjanna. Þessi mynd er tekin í dag.
Áhrifa Flórens er þegar farið að gæta á austurströnd Bandaríkjanna. Þessi mynd er tekin í dag. Vísir/Getty
Fellibylurinn Flórens nálgast nú austurströnd Bandaríkjanna óðfluga. Yfirvöld óttast að fjöldi fólks muni láta lífið af völdum fellibylsins er hann gengur á land um klukkan átta í fyrramálið að staðartíma.

Sjá einnig: „Hvort viltu verða fyrir lest eða steypubíl?“

Greint var frá því í dag að Flórens hefði verið lækkuð niður í annars stigs fellibyl eftir að vindhraði fór dvínandi en hún fór hæst uppi í fjórða stig. Veðurfræðingar leggja þó áherslu á að enn stafi gríðarleg hætta af bylnum, ekki síst vegna sjávarflóðanna sem fylgja. Slík flóð valda iðulega flestum dauðföllum þegar fellibylir ganga á land.

Veðurfræðingur The Weather Channel, Erika Navarro, bendir jafnframt á í innslagi frá því í dag að áhrifa Flórens muni gæta langt inn í landi. Þá eru áðurnefnd sjávarflóð sett fram á myndrænan hátt. Í meðfylgjandi myndbandi má sjá umfjöllun Navarro en ljóst er að sjávarflóð í fylgd Flórens gætu valdið miklum hörmungum.

1,7 milljón manns hefur verið gert að yfirgefa heimili sín í Karólínuríkjunum og Virginíu vegna Flórens. Veður á svæðinu er óðum að breytast til hins verra en þegar er orðið mjög hvasst undan ströndum áðurnefndra ríkja.

Klukkan 21 að íslenskum tíma var Flórens stödd um 250 kílómetra undan ströndum Suður-Karólínu. Eins og áður sagði er búist við að Flórens gangi á land um klukkan 8 í fyrramálið að staðartíma, eða um hádegi að íslenskum.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá beina útsendingu af veðurofsanum úr vefmyndavél á austurströnd Bandaríkjanna.


Tengdar fréttir

„Hvort viltu verða fyrir lest eða steypubíl?“

Fellibylurinn Florence hefur verið lækkaður niður í annars flokks fellibyl eftir að vindhraði hans lækkaði úr 225 kílómetrum á klukkstund í um 175 kílómetra, sem samsvarar rúmum 48 metrum á sekúndu.

Óttast að Flórens valdi umhverfisslysi

Yfirvöld í Norður-Karólínu Bandaríkjanna óttast að gríðarleg úrkoma og flóð af völdum fellibylsins Flórensar geti valdið umhverfisslysi í ríkinu. Óttast er að flæði yfir staði þar sem mengaður úrgangur frá iðnaðarsvæðum er geymdur geti mengungin borist í drykkjarvatn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×